131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

2. fsp.

[15:14]

Arnbjörg Sveinsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Síðastliðinn fimmtudag ræddum við í hv. Alþingi tillögur tekjustofnanefndar um breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga. Þær breytingar gera ráð fyrir 9,5 milljarða kr. aukningu á ráðstöfunarfé sveitarfélaganna á næstu árum og 1,5 milljarða í varanlegri breytingu á tekjustofnum sveitarfélaga. Í þann mund sem við ræddum tillögur tekjustofnanefndar boðaði borgarstjóri til blaðamannafundar og tilkynnti gjaldfrjálsan leikskóla í Reykjavíkurborg. Að vísu á fyrsti hluti þeirra breytinga ekki að taka gildi fyrr en ný borgarstjórn er tekin við, haustið 2006. Borgarstjóri hefur sagt að kostnaður við áætlun hennar um gjaldfrjálsan leikskóla sé rétt tæpur milljarður en þegar búið er að fella niður systkinaafslátt og inn koma auknar tekjur af aukastundum verði útgjaldaaukning Reykjavíkurborgar um 850 millj. kr.

Borgarstjóri vísar ítrekað í það í fréttum að hún reikni með því að ríkið komi að því að greiða niður gjaldfrjálsan leikskóla. Ég vil því beina þeirri spurningu til hæstv. fjármálaráðherra hvort eitthvert samkomulag hafi verið gert við Reykjavíkurborg um að ríkið greiði fyrir gjaldfrjálsan leikskóla í Reykjavíkurborg. Eða hefur Reykjavíkurborg metið það svo að niðurstaða tekjustofnanefndar væri svo hagstæð fyrir sveitarfélögin að þau gætu bætt við sig viðbótarkostnaðinum?