131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

4. fsp.

[15:32]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjanda Pétri H. Blöndal er kunnugt samþykktum við á Alþingi fyrir um hálfu ári ný lög um húsnæðismál og þar með um starfsemi Íbúðalánasjóðs. Með þeim lögum er sjóðnum gert að ástunda virka fjárstýringu og áhættufjárstýringu þar með. Ég kannast ekki við dæmi þess sem þingmaðurinn nefndi, að Íbúðalánasjóður tæki þátt í að lána umfram þau mörk sem honum eru sett með lögum og reglugerð. Þvert á móti er alveg skýrt hvert hámark lána Íbúðalánasjóðs er. Sjóðurinn hefur heimild til að lána með allt að 90% lánshlutfalli allt að 14,9 millj. kr. og við það hefur sjóðurinn að sjálfsögðu staðið.

Með breyttum lögum lýtur starfsemi Íbúðalánasjóðs líka fyllilega eftirliti Fjármálaeftirlitsins og eftir því sem ég best veit, hæstv. forseti, hafa engar athugasemdir komið af hálfu þess við fjárstýringu sjóðsins.