131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Um fundarstjórn.

[15:39]

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég kveð mér hljóðs um fundarstjórn forseta eins og síðasti hv. ræðumaður. Ég átti, og vona að forseti geti staðfest það, óundirbúna fyrirspurn til hæstv. félagsmálaráðherra. Það er út af fyrir sig ekki í fyrsta sinn sem ég legg fram óundirbúna fyrirspurn til ráðherra sem ekki fæst tekin á dagskrá sökum tímaskorts. Það er eflaust reynsla þingmanna almennt og vel hægt að skilja að forseti Alþingis hafi úr nokkuð vöndu að ráða að þurfa að velja hvaða fyrirspurnir eiga að komast að og hverjar ekki þegar fyrirspurnir eru fleiri en tíminn sem til ráðstöfunar er. Ég hef þess vegna aldrei gert athugasemdir við val forseta fyrr. Ég verð þó að segja að mér þykir nokkuð einkennilegt þegar þingfundurinn hér er farinn að verða einhvers konar framhald á þingflokksfundum Sjálfstæðisflokksins og ég verð að beina þeim almennu tilmælum til forseta Alþingis að þingflokksfundi Sjálfstæðisflokksins ljúki kl. þrjú og hér hefjist fundur á Alþingi eftir það.

Ég lagði fram fyrirspurn um gjaldfrjálsan leikskóla sem var fyrirspurn til þingmanns úr öðrum flokki, hæstv. ráðherra Framsóknarflokksins, Árna Magnússonar. Þegar forseti þarf að velja úr fyrirspurnum sem eru fleiri en hægt er að koma að velur hann fyrirspurn frá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, Sjálfstæðisflokki, til hæstv. fjármálaráðherra, Geirs Haardes, úr Sjálfstæðisflokki, sem þá fær tækifæri til að ganga í ræðustólinn og reyta hár sitt og skegg yfir því að ósanngjörnustu skattar á Íslandi, leikskólagjöldin á barnafjölskyldurnar í landinu, heyri sögunni til. (Forseti hringir.) Og hér þurfum við að horfa upp á eitthvert

(Forseti (HBl): Ég vil biðja hv. þingmann ...)

innanflokksleikrit í Sjálfstæðisflokknum í staðinn fyrir að fá að hlýða á málefnalegar fyrirspurnir frá þingmönnum til ráðherra sem standi fyrir máli sínu.

(Forseti (HBl): Hv. þingmaður.)

Ég vil biðjast undan svona innanflokksleikritum Sjálfstæðisflokksins í ræðustól á Alþingi, (Forseti hringir.) að við fáum tækifæri til að beina fyrirspurnum til ráðherra og láta þá standa fyrir máli sínu, virðulegi forseti.