131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Um fundarstjórn.

[15:46]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Herra forseti gerði það að umtalsefni að hann hefði ekki fengið fyrirspurnina og það kemur mér æðimikið á óvart vegna þess að ég hafði komið boðum til skrifstofustjóra þingsins um að ég hygðist ræða þessi starfslokamál og viðbrögð hæstv. viðskiptaráðherra við þeim.

Svo virðist vera að eitthvert sambandsleysi sé þar á milli sem ég tel að við þurfum að fara yfir í þinginu, þ.e. ef menn ná ekki saman með þessi atriði og að þessi liður sé í rauninni að breytast. Við verðum að skoða hvort sá liður sem við ræðum hér sé að breytast, þ.e. hvort óundirbúnu fyrirspurnirnar séu í rauninni að breytast í það að vera undirbúnar fyrirspurnar, (Forseti hringir.) undirbúnar fyrirspurnir stjórnarliða að spyrja sína eigin ráðherra. Hvað er að gerast?

(Forseti (HBl): Ég vil benda hv. þingmanni á að skrifstofustjóra, skrifstofu Alþingis og forseta barst engin beiðni frá hv. þingmanni um að hann hygðist taka til máls undir þessum dagskrárlið á þessum fundi í dag. Engin.)

Herra forseti. Við getum farið yfir það seinna. Ekki ætla ég að þrátta við hann en ég er sannfærður um að hafa sent ágætum skrifstofustjóra þau boð.

Hvað varðar stjórnina á þinginu almennt og það að einhver vakni illa — mér finnst mjög undarlegt þegar menn taka frá tíma í þinginu til að fara yfir sama mál tvisvar. Ég bið þjóðina að skoða þá umræðu sem fer fram hér á eftir. Nú erum við að fara að ræða skipasmíðaiðnaðinn á Akureyri, sem er þarft mál, og aðkomu Ríkiskaupa að því máli. Það er með ólíkindum og sýnir kannski ástandið á stjórnarheimilinu þegar framsóknarmenn og sjálfstæðismenn eru farnir að varpa frá sér ábyrgð á því að taka á ákveðnu máli. Í stað þess að taka á því og leysa það koma þeir hér upp, taka frá tíma í þinginu og eyða honum í að varpa frá sér ábyrgð. Mér finnst það vera stórundarlegt háttalag í staðinn fyrir að leysa málið.