131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[15:54]

fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Herra forseti. Vissulega er mjög miður að viðgerðir á varðskipunum tveimur skyldu ekki lenda á Akureyri heldur í Póllandi samkvæmt því útboði sem fram fór. Það er þó ánægjulegt að svo litlu skyldi hafa munað í kostnaðartölum eða útboðsfjárhæðum eins og raun ber vitni. Það er til marks um að íslenskur skipasmíðaiðnaður er þrátt fyrir allt orðinn býsna samkeppnisfær við það sem gerist í löndum eins og Póllandi sem greinilega er ekki lengur það láglaunaland sem áður var.

Á Íslandi búum við við ákveðnar reglur í sambandi við opinber innkaup. Hér í landi gilda lög frá 2001 um það efni sem við í þessum sal samþykktum. Þessum lögum ber að fara eftir. Þau eru eins og við þekkjum vel byggð á leikreglunum á Evrópska efnahagssvæðinu og eiga fyrirmynd sína í þeim reglum sem þar gilda.

Þess vegna er hálfhjákátlegt, svo ekki sé meira sagt, og reyndar furðulegt á köflum þegar þeir gagnrýna það að farið skuli eftir þessum reglum sem gera í hina röndina kröfur um að við sökkvum okkur enn dýpra ofan í hið evrópska reglugerðafargan með því að ganga í Evrópusambandið eða eru að gæla við hugmyndir í þá átt. Það skýtur nokkuð skökku við, virðulegi forseti.

Um þetta mál gilda lög. Það var alveg ljóst að það gat ekki annað en farið fram útboð um þetta verkefni. Ég tel að þeir sem að því stóðu hafi unnið það verk samviskusamlega og í samræmi við það sem fyrir er lagt í gildandi reglum. Ríkiskaup annast í umboði stofnana ríkisins hundruð útboða á ári hverju án pólitískra afskipta af minni hálfu eða annarra ráðherra. Það tíðkast ekki lengur að ráðherrar séu með pólitísk inngrip í útboð af þessu tagi. Kannski er það það sem menn eru að kvarta undan að hafi vantað í þetta mál.

Málið var til lykta leitt samkvæmt þeim reglum sem um slík mál gilda. Ríkiskaup eru eins og kunnugt er sérhæfður þjónustuaðili við ríkisstofnanir á þessu sviði og jafnframt eins konar regluvörður gagnvart því að farið sé að settum reglum um þessi mál og að leikreglunum sem um þetta gilda. Auðvitað er það öllum fyrir bestu að það sé jafnan gert.

Ef upp kemur ágreiningur milli kaupanda tiltekinnar þjónustu eða vöru sem Ríkiskaup annast milligöngu um, milli þeirrar stofnunar og Ríkiskaupa, er unnt að skjóta þeim ágreiningi til fjármálaráðuneytisins. Fyrr kemur mál ekki til kasta ráðuneytisins. Það var ekki gert í þessu máli. Það var ekki ágreiningur milli kaupandans og Ríkiskaupa. Þar af leiðandi kom þetta mál aldrei inn á borð þess sem hér stendur.

Hins vegar tek ég undir margt af því sem fram kom í máli hv. þingmanns. Sérstaklega hafa tvö atriði valdið mér umhugsun í þessu máli, annars vegar spurningin um það hvers vegna Landhelgisgæslan og Ríkiskaup, hvort í sínu lagi eða saman, gera kröfu um þessa ISO-vottun þegar vitað er að íslensku stöðvarnar eru ekki með hana. Það er fyrra atriðið. Hitt atriðið er svo: Hvers vegna er þessari vottun gefið 20% vægi? Með því er raunverulega verið að gefa hinum erlendu skipasmíðastöðvum 20% forskot áður en gengið er til útboðs. (JÁ: Getur þú ekki svarað þessu?) Mér er spurn: Hvers vegna er þessi krafa gerð? Ég hef ekki svar við því. Ég legg til að þeir þingmenn sem vilja afla sér svara við því kalli fyrir sig í þingnefnd aðilana sem fóru yfir þetta mál, forustumenn Gæslunnar, og spyrji hvers vegna þeir vildu hafa þessa ISO-vottun, spyrji Ríkiskaup af hverju þau hafi gefið henni 20% vægi í þessu máli. (Gripið fram í: … ráðherrann.) Síðan geta menn sest yfir málið og komist að niðurstöðu um hvort það kalli á einhverjar breytingar á vinnubrögðum okkar í þessu efni.

Við vitum vel að íslensku skipasmíðastöðvarnar eru ekki með þessa vottun. Það má vel vera að með því að gera kröfu um hana hafi verið bægt frá einhverjum stöðvum, undirboðsstöðvum austar í álfunni, það er ekki ólíklegt að það hafi verið gert. Mér finnst þetta umhugsunarefni og ég tel rétt að t.d. iðnaðarnefnd þingsins afli sér upplýsinga um þetta tiltekna atriði.

Varðandi hins vegar kostnaðarútreikning og annað þess háttar er að sjálfsögðu byggt á reynslutölum. Landhelgisgæslan hefur reynslu af því að skipta við þessa pólsku skipasmíðastöð, veit hvað það kostar. Þær tölur voru lagðar til grundvallar. Kjarni málsins er ekki sá, heldur hitt að jafnvel þó að tilboð Slippstöðvarinnar hefði verið lægra hefði þessi krafa um ISO-vottun gert það að verkum að stöðin hefði ekki náð þessum viðskiptum. Það er það sem (Forseti hringir.) mér finnst hið alvarlega.