131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:02]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Dauðyflisháttur ríkisstjórnarinnar þegar kemur að málefnum skipaiðnaðarins er og hefur verið með endemum mörg undanfarin ár. Það er dapurlegt að heyra hæstv. ráðherra og stjórnarliða vera á harðahlaupum við að varpa ábyrgðinni hver á annan, og af sjálfum sér og niður á embættismenn.

Hv. málshefjandi fullyrti að í landinu væri pólitískur vilji til að halda þessum verkefnum í landinu. Er það? Í hverju birtist hann? Eru þetta bara vondir embættismenn sem ganga sjálfala? Er þetta allt saman Landhelgisgæslunni og Ríkiskaupum að kenna sem bara ganga sjálfala? (Gripið fram í: Evróputilskipun.) Heyrir þetta ekki undir einhverja ráðherra, hvernig er það?

Sami atburður gerðist fyrir 3–4 árum. Þá var lofað bót og betrun og talað um alls konar samráð, gerðar skýrslur og guð má vita hvað. Nú endurtekur sagan sig alveg gjörsamlega nákvæmlega.

Það er augljóst mál að það er óhagstætt fyrir Landhelgisgæsluna að taka ekki tilboði Slippstöðvarinnar. Það er furðulegt að það skuli ekki vera gert. Það er furðulegt að verkið skuli ekki beinlínis vera undirbúið og áfangaskipt þannig að það greiði götu þess að það verði unnið á Íslandi. Allar líkur eru á að það yrði ódýrara fyrir Gæsluna sem slíka og miklu ódýrara fyrir ríkissjóð og þjóðarbúið þegar margfeldisáhrifin af því að setja verðmætin í umferð hér eru tekin með í reikninginn.

Skulum við ekki muna eftir því líka að ætli Landhelgisgæslunni þyki ekki gott að hafa Slippstöðina á Akureyri til að skríða þangað inn ef hún þarf að öxuldraga allt í einu um hávetur? Þá á að vera til skipasmíðaiðnaður til að þjóna mönnum þegar þeir komast ekki annað. Það er svo mikil skammsýni og barnaskapur að standa svona að málum að það er þyngra en tárum taki.

Við höfum ár eftir ár flutt tillögu um að endurreisa íslenska skipaiðnaðinn. Það er mannanna verk að hann skuli hafa verið látinn koðna svona niður. Hæstv. ríkisstjórn, og ég tala nú ekki um ríkisstjórn sem er búin að sitja í hátt á annan áratug, getur ekki skriðið í felur (Forseti hringir.) eða kennt hér öðrum um þegar svona atburðir verða.