131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:11]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Það er vissulega karlmannlegt að axla ábyrgð eins og hefur verið sagt í þessum ræðustóli. En það getur líka verið karlmannlegt í stjórnmálum að tileinka sér hagfræði hinnar hagsýnu húsmóður. Hefðu menn gert það á öllum stigum þessa máls hefðu þeir náttúrlega gert sér grein fyrir því að hagstæðasta tilboðið þarf ekki endilega að vera það lægsta. Það segir sig sjálft að það þarf ekki að vera hagstæðasta tilboðið vegna þess að þá hafa menn í huga ákveðin pólitísk og samfélagsleg markmið í þessum efnum.

Hér hefur verið minnst bæði á áfangaskiptingu verkefna og margfeldisáhrifin, að sjálfsögðu, og ég hygg að ef allt þetta hefði verið tekið inn frá upphafi, á öllum stigum þessa máls, hefði legið fyrir hvar hagkvæmast væri að láta fara fram viðhald á varðskipunum Ægi og Tý.

Hvað 20% forskotið varðar sem hæstv. fjármálaráðherra gerði að sérstöku umtalsefni stendur hnífurinn þar í kúnni. Hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. dómsmálaráðherra geta að sjálfsögðu ekki skotið sér undan þeirri ábyrgð sem þeir báðir bera, annars vegar á Ríkiskaupum og hins vegar á Landhelgisgæslunni. Það kom hér fram að það hefði verið ákvörðun þessara tveggja aðila að notast við ISO-staðalinn svokallaða. Það segir sig því sjálft hverjir eiga að axla ábyrgð í málinu.

Síðan þessi einkennilega krókaleið inn í EES-samninginn. Eins og fram kom í máli hv. þm. Hjálmars Árnasonar virðast Íslendingar vera kaþólskari en páfinn þegar kemur að því að túlka reglurnar á hinu Evrópska efnahagssvæði. Ég hygg að margt væri hér með öðru horfi og svigrúmið meira ef menn legðu á sig þá vinnu að fara almennilega yfir það hvað þarf að gera og hvað þarf ekki að gera innan ramma hins Evrópska efnahagssvæðis.