131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Útboðsreglur ríkisins.

[16:15]

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þessa umræðu og þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir svörin.

Ég vil í fyrsta lagi bregðast við því sem hv. þm. Bjarni Benediktsson sagði áðan. Ég er honum sammála um það að okkur beri að virða reglur og ég legg áherslu á að ég tel ekki að neinar reglur hafi verið brotnar í þessu útboði. Leikreglurnar sem Ríkiskaup settu sér í þessu tiltekna verkefni varða ISO-staðalinn þannig að hann skyldi vega 20% í þessu útboði, vitandi það að íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur ekki þennan ISO-staðal til að bera. Til útskýringar endurspeglar umræddur ISO-staðall einungis ákveðin vinnubrögð og verkferla við ákveðin verkefni. Hann segir ekkert til um gæði verksins enda mun Siglingastofnun eða viðkomandi flokkunarfélag þurfa að fylgjast með framvindu verksins í Póllandi á verktímanum.

Það er vert að geta þess í þessu samhengi að þó að Slippstöðin á Akureyri hafi ekki umræddan ISO-staðal hefur stöðin verið rómuð fyrir mjög gott verklag í gegnum tíðina og staðist ströngustu alþjóðlegu kröfur um verkstaðla. Sá er akkúrat kjarni málsins, ég tel að hér hafi engar alþjóðlegar EES-reglur verið brotnar, það er einungis spurning um það hvaða kröfur Ríkiskaup gerðu í útboði sínu og þær voru að fyrirtæki hefðu þennan ISO-staðal sem Ríkiskaup vita að íslenskur skipasmíðaiðnaður hefur ekki.

Ég legg áherslu á að mér er fullkunnugt um að hæstv. fjármálaráðherra hafði enga beina aðkomu að þessu máli. Ég spyr hins vegar hv. þingmenn: Hvert á maður að beina fyrirspurnum sínum hér ef ekki til yfirmanns viðkomandi stofnunar?