131. löggjafarþing — 93. fundur,  21. mars 2005.

Sala fasteigna, fyrirtækja og skipa.

629. mál
[16:20]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sölu fasteigna, fyrirtækja og skipa sem lagt er fram af allsherjarnefnd.

Ég leyfi mér að vísa til þskj. 950 um efnisatriði frumvarpsins en hér er um það að ræða að með bráðabirgðaákvæði verði bætt við lögin sérstöku gildistökuákvæði sem varði þá aðila sem hafa nú þegar skráð sig á námskeið til löggildingar sem fasteignasalar. Þannig háttar til að lögin sem sett voru á Alþingi á síðasta ári hafa gildistöku gagnvart þessum aðilum 1. apríl en þeir hafa frá því að lögin voru sett ekki haft svigrúm til að uppfylla ný skilyrði laganna sem eigendur að fasteignasölum. Þess vegna er nauðsynlegt að þingið setji þau lög sem hér er gerð tillaga um í frumvarpinu og veiti þeim aðilum sem þegar hafa skráð sig á námskeiðið og með því gert það sem í þeirra valdi stendur til að standa undir nýjum skilyrðum laganna kleift að uppfylla skilyrðin áður en lögin taka að fullu gildi gagnvart þeim.

Ég ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð en er tilbúinn til þess að eiga orðaskipti við menn ef frekari skýringa á málinu er þörf. Ég tel þó að það sé tiltölulega einfalt og auðskilið. Ég mælist til að málið fari ekki til nefndarinnar þar sem það stafar frá henni.