131. löggjafarþing — 94. fundur,  21. mars 2005.

Veiting ríkisborgararéttar.

663. mál
[16:51]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um veitingu ríkisborgararéttar sem stafar frá allsherjarnefnd.

Samkvæmt frumvarpinu leggur allsherjarnefnd til að Robert James Fischer fái íslenskan ríkisborgararétt en skv. 6. gr. laga um ríkisborgararétt, nr. 100/1952, veitir Alþingi ríkisborgararétt með lögum.

Forseti Alþingis framvísaði til nefndarinnar umræddri beiðni með bréfi frá 24. janúar. Nefndin tók beiðnina fyrst til umfjöllunar á fundi sínum 27. janúar og hefur nú komist að þeirri niðurstöðu einróma að fallast beri á umsóknina.