131. löggjafarþing — 94. fundur,  21. mars 2005.

Veiting ríkisborgararéttar.

663. mál
[16:53]

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég vil aðeins í örstuttri ræðu lýsa því yfir að ég fagna þessari niðurstöðu í allsherjarnefnd. Ég vil sérstaklega þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni, formanni allsherjarnefndar, fyrir vönduð vinnubrögð í þessu máli. Ég tel að við séum að stíga þarna ákaflega jákvætt skref.

Ég tel að Bobby Fischer hafi skrifað sig inn í skáksögu Íslands með þeim hætti að það séu sérstök tengsl milli hans og íslensku þjóðarinnar. Ég tel að sú ákvörðun sem hér er tekin sé rökrétt framhald af því skrefi sem hæstv. utanríkisráðherra steig. Ég fagna þessari niðurstöðu og ég tel ekki að hér sé verið að veita nein sérstök fordæmi.