131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[17:35]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég er aldeilis ekki viðkvæmur fyrir umræðum um þetta og vil gjarnan ræða þetta sem mest. Ég óskaði eftir hæstv. fjármálaráðherra hingað líka til að geta haldið þessari umræðu áfram af því að ég er mjög spenntur fyrir henni satt best að segja.

Ég vil í fyrsta lagi leiðrétta að ég held að það sé ekki rétt orðanotkun að tala um samkomulag, fullt samkomulag milli ríkisins og sveitarfélaganna um þessi mál, það er bara einfaldlega ekki þannig. Tekjustofnanefndin klofnaði og ályktun aukalandsfundar landsþings sveitarfélaganna ber það bersýnilega með sér að megn óánægja er þar með þessa niðurstöðu og mjög skiptar skoðanir um hana. Sú óánægja og sá ágreiningur fer auðvitað áfram inn í málið ef svo heldur sem horfir. Þess vegna m.a. er ég að hvetja menn til þess að reyna að nota tímann og gera betur.

Varðandi gjaldfrjálsa leikskólann fögnum við að sjálfsögðu hverjum liðsmanni sem bætist í þann hóp, sem fer sem betur fer ört vaxandi. Menn eru að kveikja á því að það er löngu tímabært skref í áframhaldandi uppbyggingu okkar velferðarsamfélags að taka þetta fyrsta skólastig og meðhöndla það með sama hætti og grunnskólann, að þetta verði óaðskiljanlegur hluti af þeirri umönnunar-, uppeldis- og fræðslustarfsemi sem öllum standi til boða á jafnræðisgrundvelli þangað til skyldunámi lýkur a.m.k. og auðvitað áfram. Við fögnum því að þessi skref hafi verið tekin í hvaða sveitarfélagi sem er og af hvaða stjórnmálamönnum sem er. Ég er ekkert hræddur um að þessu máli verði stolið af Vinstri grænum enda eigum við auðvitað engan einkarétt á því frekar en neinn annar á góðum málum þó að það sé staðreynd sem ekki verður afmáð að við vorum sá flokkur sem fyrst tók þetta upp sem baráttumál á landsvísu og gerðum það að baráttumál í kosningum fyrir tvennum kosningum síðan eins og kunnugt er.

Að mínu mati þarf ekki að spyrja að því hvort fjármálaráðherra hafi gert samkomulag við Reykjavíkurborg, (Forseti hringir.) það liggur fyrir. Það vita menn að er ekki. (Forseti hringir.) Hitt er ljóst að menn hafa séð þetta fyrir sér (Forseti hringir.) sem nauðsynlegt samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga ef það á að komast til framkvæmda til fulls.