131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:22]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég deili ekki sjónarmiðum hv. þingmanns um hlut Reykjavíkur í þessari tekjuskiptingu en ég ætla að láta það liggja á milli hluta. Ég fagna því að hv. þm. Guðjón Hjörleifsson, sem fer fyrir Sjálfstæðisflokknum í þessum umræðum um tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga, skuli taka þátt í umræðunni.

Ég vildi beina þeirri einföldu spurningu til hv. þingmanns, í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa verið: Lítur Sjálfstæðisflokkurinn ekki á það sem forgangsmál í fjármálum sveitarfélaganna að veita leikskólabörnum gjaldfrjálsa dvöl í leikskóla í allt að sjö stundir á dag, fyrstu skólaárin í leikskólanum? Eða styður Sjálfstæðisflokkurinn yfir höfuð ekki að fjármunum sé í verulegum mæli varið til þessa þarfa og góða verkefnis?

Gæti hv. þingmaður skýrt afstöðu Sjálfstæðisflokksins til þessa mikilvæga atriðis í verka- og tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga?