131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:32]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég ætla að lýsa yfir stuðningi við þetta frumvarp sem við erum að ræða hér og taka undir með ýmsum ræðumönnum sem hafa sagt að hér sé um sérstakan vanda að ræða, að vandamál sveitarfélaganna séu einmitt vandamál sveitarfélaganna og sjávarbyggðanna og landsbyggðarinnar. Það er vissulega vel þess virði að ræða hvers vegna þessum byggðarlögum hefur vegnað svona illa í stjórnartíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins. Ég fór aðeins yfir það í ræðu minni við 1. umr. og þá brást hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson mjög illa við þegar ég benti honum á að það kerfi sem hann hefur stutt hefur leikið heimabyggð hans mjög grátt. Auðvitað skilur maður það að sannleikanum verður hver sárreiðastur. Þegar stjórnarþingmenn halda frekar með flokkum sínum í verkum gegn sínum heimabyggðum þá er það óskiljanlegt og er í raun óafsakanlegt. Ég tel að sagan muni dæma þessa ágætu þingmenn mjög hart. Það er mjög undarlegt að menn skuli hafa látið þetta yfir sig ganga.

Nefnd var hagræðing í þessari atvinnugrein. Það er engin hagræðing þegar aflinn er helmingi minni en fyrir daga kerfisins. Getur hver maður séð að það gengur ekki upp. Fleiri aðgerðir kvótaflokkanna má nefna sem hafa leikið byggðirnar mjög grátt. Nefna má Búðardal. Vegna þess að hæstv. landbúnaðarráðherra var í salnum finnst mér rétt að minnast á að mér finnst níðingsverk gagnvart atvinnustarfsemi þar að loka sláturhúsinu og bera við einhverjum Evrópureglum. Þar fór hann algerlega yfir strikið.

Aðalástæðan fyrir því að ég tek til máls er ræða hæstv. félagsmálaráðherra við 1. umr. Hann sagði, með leyfi herra forseta:

„Það er engin leið að skilja afstöðu Frjálslynda flokksins til málsins öðruvísi en svo að hann sé þá á móti þeirri leiðréttingu í tekjuskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem hér hefur ítrekað komið til tals. Þetta er athyglisverð afstaða, raunar óskiljanleg ...“

Ég verð þá að grípa til þess að skýra út fyrir hæstv. félagsmálaráðherra hvað ég var að ræða. Ég var að ræða um vöxt hins opinbera. Hið opinbera samanstendur af annars vegar ríkinu og hins vegar sveitarfélögunum. Ég tel það mjög mikið áhyggjuefni að hlutfall hins opinbera sé orðið helmingur af þjóðarframleiðslu. Það hefur vaxið gríðarlega í stjórnartíð Framsóknar- og Sjálfstæðisflokksins, flokksins sem þykist alltaf ætla að draga úr bákninu. Í raun er það áhyggjuefni að sjálfur hæstv. félagsmálaráðherra áttar sig ekki á að þetta er alvarlegt og það ber að stríða á móti þessu.

En ef maður skoðar verk Framsóknarflokksins í að þenja út ríkisbatteríið, svo sem eins og að fjölga sendiherrum um 70% á örfáum árum þá er það áhyggjuefni. Ég vona að ágætir framsóknarmenn fari nú að opna augun fyrir því að þetta gengur ekki svona áfram. Mér virtist mega skilja það á hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur að henni þætti vera eitthvað undarlegt við þessa forgangsröðun þegar við ræddum um að sami fjöldi hefði verið hjá Samkeppnisstofnun í áraraðir og engin hreyfing þó að stór mál væru til umræðu en Framsóknarflokkurinn hefði fjölgað sendiherrum um 70%. Ég vona að Framsóknarflokkurinn átti sig á því að þetta er ekki rétt forgangsröðun.

Sama má segja um fleiri mál þar sem Framsóknarflokkurinn er á villigötum í að þenja út eitthvað sem engum er til gagns og jafnvel þjóðinni til ógagns svo sem að fara í öryggisráðið. Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn ætla að verja 800–1.000 milljónum í það. Þetta er það sem ég er að tala um, að vera ekki að þenja út hið opinbera. Ég var ekki að tala um hvernig verkaskiptingin ætti að vera milli hins opinbera, þ.e. annars vegar ríkis og sveitarfélaga. Það er allt annar handleggur.

Svo vill til að í fleiri málum er ýmis sérfræðikostnaður að þenjast út. Ég vil nefna t.d. að þegar Framsóknarflokkurinn þarf að réttlæta gjörðir sínar er bara keypt einhver sérfræðivinna, til dæmis alla leið upp í Háskóla og Eiríkur Tómasson, ágætur flokksmaður Framsóknarflokksins og prófessor, er beðinn um álit. Af því að ég vil gæta þess að útgjöld ríkisins fari ekki fram úr hófi hef ég spurt á hinu háa Alþingi um kostnaðinn við þetta, bæði við framboðið í öryggisráðið og um kostnaðinn sem hlaust af kattarþvotti Eiríks Tómassonar. Þetta virðist vera svo viðkvæmt mál hjá Framsóknarflokknum að maður fær engin svör og maður botnar í raun ekkert í því að ekki sé svarað svo einföldum spurningum. Auðvitað ætti það að liggja fyrir áður en menn sækja um aðild að öryggisráðinu hvað það kosti. Eru það 800 eða 1.000 milljónir, 2.000 milljónir? Það er eðlilegt að menn spyrji um þetta. Öryggisráðið virðist vera svo viðkvæmt hjá hæstv. utanríkisráðherra að hann hefur ekki séð sér fært að svara og það eru komnir fjórir mánuðir. Mér finnst það með ólíkindum og það eru fleiri á þessari skoðun.

Í tengslum við þessa umræðu má nefna að hinar dreifðu byggðir standa illa og þær koma jafnvel illa út úr útþenslu ríkisins. Ágæt skýrsla kom frá Vífli Karlssyni, dósent á Bifröst, sem sýndi fram á að skatttekjur hins opinbera af landsbyggðinni fyrir utan skattumdæmi Reykjavíkur og Reykjaness eru um 30%. En einungis helmingi af skatttekjum er varið þannig að það er beint fjárstreymi af landsbyggðinni suður til Reykjavíkur. Þetta skiptir máli. Þess vegna höfum við þingmenn landsbyggðarinnar áhyggjur af útþenslustefnu Framsóknarflokksins sem virðist öll fara fram á Reykjavíkursvæðinu og er þá öfug byggðastefna. Ef maður skoðar byggðaþróun hefur hún líka bara verið einhliða.

Annað er að verið er að ræða um að sameina sveitarfélög. Það er í raun ekki lausn á byggðavandanum. Það er ekki hægt að líta til þess að sameiningin ein og sér skipti öllu máli og það að búa til einhvern jöfnunarsjóð sem flytur fjármuni milli sveitarfélaga. Byggðavandinn snýst um atvinnumál og að kvótaflokkarnir hafa bundið atvinnuvegi bæði til sjávar og sveita í mikil höft. Það er áhyggjuefni.

Að lokum ætla ég að nefna eitt mál sem ég spurði hæstv. félagsmálaráðherra um, þ.e. að nemendur í stórum sameinuðum sveitarfélögum eiga ekki rétt á húsaleigubótum á meðan sveitarfélög sem hafa staðið utan við eiga rétt á bótunum. Hann svaraði að mögulega stæði til að kippa þessu í liðinn. Ég tel að hæstv. félagsmálaráðherra ætti að vera löngu búinn að kippa þessu í liðinn. Það er varla hægt að ætlast til þess að fólk sem verður af húsaleigubótum, t.d. í Akrahreppi í Skagafirði, eigi að kjósa um sameiningu. Mér finnst sjálfgefið að kippa þessu í liðinn.

Að lokum er rétt að ítreka að sjálf sameiningin mun ekki leysa byggðavandann. Ég óttast að þetta sé einmitt umræða sem menn taka til að forðast raunverulegan vanda byggðanna.