131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:43]

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram í dag um þetta mál sem kannski að stærstum hluta og mörgu leyti hefur verið endurtekning á umræðu okkar við 1. umr. um málið sem við áttum á fimmtudaginn var.

Ég vil bregðast við nokkrum atriðum sem hér hafa komið fram, í fyrsta lagi við athugasemdum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar um að hér væri um að ræða — og vísa þá til þess hluta málsins sem lýtur að skiptingu tekna á milli ríkis og sveitarfélaga — eins og þingmaðurinn orðaði það, gulrót af hálfu ríkisins gagnvart sveitarfélögunum ef menn færu að vilja ríkisstjórnarinnar um sameiningu sveitarfélaga. Rétt er að árétta það, hæstv. forseti, að hér er um samvinnuverkefni ríkis og sveitarfélaga að ræða sem er ráðist í fyrir frumkvæði og forgöngu sveitarfélaganna að undangengnum margítrekuðum samþykktum á vettvangi Sambands íslenskra sveitarfélaga. Hér er því ekki um að ræða verkefni sem ríkið keyrir eitt og sjálft, allt að því í andstöðu við sveitarfélögin, eins og mátti skilja hv. þingmann, heldur samvinnuverkefni þar sem menn hafa tekið höndum saman um að efla, stækka og sameina sveitarfélögin og eru sammála um að brýn þörf sé á því.

Hér hefur mönnum sömuleiðis orðið tíðrætt um útspil borgarstjórans í Reykjavík á fimmtudaginn, um leikskólamál, um gjaldfrjálsan leikskóla, og ítrekað verið spurt um afstöðu félagsmálaráðherra til þeirrar grundvallarhugsunar sem í því útspili borgarstjórans felst.

Hæstv. forseti. Það er skemmst frá því að segja að Framsóknarflokkurinn hefur ályktað um þetta mál, ekki einu sinni og ekki tvisvar, heldur að ég hygg oftar, síðast á flokksþingi sínu nú sem nýliðið er. Það liggur alveg fyrir að það er eitt af áherslumálum flokks míns að til þessa geti komið í framtíðinni. Það er hins vegar ekki sérstaklega á dagskrá núverandi ríkisstjórnar. Það liggur sömuleiðis fyrir.

Ég fagna sem þingmaður Reykvíkinga þeim hugmyndum að hér verði boðið upp á gjaldfrjálsan leikskóla. Vegna þess við hvaða aðstæður þetta mál er rætt er auðvitað nauðsynlegt að minna á og rifja upp að á 19. landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga á föstudaginn gagnrýndu sveitarstjórnarmenn fulltrúa Reykjavíkur allnokkuð og bentu á að þetta útspil borgarinnar mundi skapa þrýsting á önnur sveitarfélög í landinu til að gera slíkt hið sama. Eins og fram hefur komið í umræðunni hér í dag eru þau auðvitað mjög misjafnlega í stakk búin til að bregðast við því. Ég hygg að við sem hér erum séum öll sammála um það. Það er kannski ekki síst það sem málið snýst um þegar við ræðum tekjustofna sveitarfélaganna og fjárhagslega stöðu þeirra að staðan er ákaflega misjöfn, allt frá því að vera mjög góð yfir í það að vera verulega slæm.

Þær tillögur sem tekjustofnanefnd kom sér saman um að undanskildum einum fulltrúa í henni lúta að tvennu eins og kom fram hér á fimmtudaginn, annars vegar að því að bregðast við til skamms tíma og hins vegar lengri tíma, annars vegar að bregðast við stöðu verst settu sveitarfélaganna sem eru á landsbyggðinni og hins vegar er komið nokkuð til móts við hin sveitarfélögin, þar á meðal Reykjavík, með breytingum á innheimtu fasteignaskatts.

Það má auðvitað spyrja sig, hæstv. forseti, hvort yfirleitt sé ástæða til að taka upp einhverjar sérstakar viðræður um greiðsluþátttöku ríkisins í gjaldfrjálsum leikskóla eins og hefur gjarnan verið til umræðu hér á Alþingi. Tillaga Vinstri grænna gengur m.a. út á það og ef ég veit rétt er hún til umfjöllunar í hv. félagsmálanefnd. Er yfirleitt ástæða til að ræða slíkar hugmyndir ef sveitarfélögin treysta sér til að ganga í þetta verkefni ein og óstudd eins og Reykjavíkurborg hefur nú ákveðið að gera? Ég ítreka, hæstv. forseti, að það er út af fyrir sig fagnaðarefni.

Það er rétt sem fram kom í máli hæstv. fjármálaráðherra í dag að það liggur ekkert samkomulag fyrir milli ríkis og sveitarfélaga um þetta mál, hreint ekki. Mér vitanlega hafa engar viðræður farið fram um það. Það er engin ástæða til að gera meira úr þeim orðum finnst mér en ég hygg að hafi verið stofnað til. Einfaldlega engar viðræður hafa átt sér stað um málið milli ríkis og sveitarfélaga eftir því sem ég best veit.

Ég hygg að ég hafi svarað nægilega skýrt hvað þetta varðar. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson spurði hvort tekjustofnamálið væri í uppnámi í heild sinni af þessum sökum. Ég tel svo alls ekki vera. Við höfum náð niðurstöðu í þessu máli eftir langar og strangar viðræður. Sú niðurstaða stendur. Eins og kom fram í máli mínu hér á fimmtudaginn á hins vegar eftir að útfæra nákvæmlega með hvaða hætti verður unnið úr niðurstöðunni. Niðurstaðan hvað þetta varðar er þó sú að til þessa verður varið 600 milljónum af hálfu ríkisins. Við það verður að sjálfsögðu staðið. Lengra er það ekki komið eins og ítrekað kom fram í umræðum á fimmtudaginn var.

Hæstv. forseti. Að lokum vildi ég aðeins nefna það sem hv. þm. Sigurjón Þórðarson kom inn á í máli sínu. Hann nefndi til kafla úr ræðu minni frá því á fimmtudaginn þar sem ég áttaði mig ekki almennilega á því hver afstaða Frjálslynda flokksins væri til tillagnanna um breytta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að þrátt fyrir ræðu hv. þingmanns hér áðan er ég engu nær. Ég átta mig á því að hv. þingmaður hefur áhyggjur af útgjaldaþenslu hins opinbera (SigurjÞ: Þú ættir að hafa þær líka.) en það liggur ekkert fyrir eftir ræðu hv. þingmanns áðan hver afstaða hans til þessa máls er. Ég veit hver afstaða hans er til sjávarútvegsmála. Hún kemur fram hér við hvert einasta mál sem rætt er í þinginu, hvort sem það er gjaldfrjáls leikskóli eða sameining sveitarfélaga, en ég er engu nær um það hvort þingmaðurinn er með eða á móti þeirri niðurstöðu sem náðist í tekjustofnanefnd. Það væri ágætt að hv. þingmaður gerði grein fyrir afstöðu sinni.

Hv. þingmaður ítrekaði líka spurningu sína, sem ég raunar svaraði hér á fimmtudaginn, um stöðu mála varðandi nemendur í stórum sveitarfélögum sem sækja þurfa framhaldsskóla um langan veg. Það kom fram í máli mínu sl. fimmtudag og hefur komið fram í máli mínu í þinginu áður að ég tel fulla ástæðu til að fara yfir það mál. Það er verið að því í samráðsnefnd um húsaleigubætur. Það er nú þannig, og það er rétt að hv. þingmaður átti sig á því, að við breytum ekki reglum um húsaleigubætur nema um það liggi fyrir samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga. Ríki og sveitarfélög verða að koma sér saman um það. Þetta yrði til útgjaldaauka og menn þurfa þá að ná saman um það hvernig eigi að brúa það bil.