131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:51]

Einar Már Sigurðarson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra talaði mjög skýrt um afstöðu sína og flokks síns til gjaldfrjáls leikskóla, og er auðvitað fagnaðarefni að þar er ekki verið að bakka nokkurn skapaðan hlut í þeirri stefnumörkun sem Framsóknarflokkurinn hefur gagnvart hinum gjaldfrjálsa leikskóla.

Það sem vekur hins vegar athygli er þegar hæstv. félagsmálaráðherra reynir að milda orðalag hæstv. fjármálaráðherra sem talaði býsna skýrt í leikþættinum sem hér átti sér stað í byrjun þingfundar í dag og fullyrðir að hæstv. fjármálaráðherra hafi ekki sagt neitt meira en að hann teldi þetta hafa valdið ólgu. Hæstv. ráðherra sagði hins vegar að þetta hefði komið í bakið á sér.

Ég spyr því hæstv. félagsmálaráðherra, vegna þess að hæstv. ráðherra nefnir að eftir séu útfærslur: Er það hugsanlegt að einhvern veginn öðruvísi verði staðið að breytingum á 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga en skilja má af niðurstöðum tekjustofnanefndarinnar, þ.e. að lögunum verði breytt? Vissulega er útfærslan flókin gagnvart 2006 og 2007, er hugsanlegt að þeirri útfærslu verði á einhvern hátt breytt miðað við niðurstöðu nefndarinnar?

(Forseti (BÁ): Forseti mismælti sig áðan og vill taka fram að aðeins er ein mínúta til ráðstöfunar í hverju andsvari og svari.)