131. löggjafarþing — 96. fundur,  21. mars 2005.

Sveitarstjórnarlög.

639. mál
[18:59]

Lúðvík Bergvinsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sú umræða sem hér hefur farið fram hefur dregið mjög skýrt fram að það er ólíklegt að núverandi ríkisstjórn muni beita sér fyrir því að koma á gjaldfrjálsum leikskóla hringinn í kringum landið, ekki vegna þess að hæstv. félagsmálaráðherra hafi ekki áhuga á málinu, það er einfaldlega ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna um það. Meðan þessir flokkar eru saman í ríkisstjórn er ljóst að ríkisstjórnin mun ekki beita sér fyrir þessu.

Ástæðan fyrir því að ég bað um andsvar við hæstv. ráðherra var kannski til að leiðrétta hann. Það er rétt að sumir gagnrýndu borgarstjórann í Reykjavík fyrir að koma fram með þá hugmynd sem hún gerði á fimmtudaginn en aðrir tóku einmitt undir og sögðu: Það er svo mikilvægt að hér er um ákveðna stefnumarkandi ákvörðun að ræða sem önnur sveitarfélög munu þurfa að fylgja. Það er ljóst að sveitarfélögin í landinu eru ekki öll tilbúin til að takast á herðar þetta verkefni. Því er alveg ljóst og það er alveg rétt hjá hæstv. félagsmálaráðherra að ríkisstjórnin mun örugglega þurfa að taka þátt í þeirri stefnumótun sem (Forseti hringir.) borgarstjórinn í Reykjavík hefur markað um gjaldfrjálsan (Forseti hringir.) leikskóla hringinn í kringum landið.