131. löggjafarþing — 97. fundur,  21. mars 2005.

Mannréttindasáttmáli Evrópu.

583. mál
[19:27]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, nr. 62/1994.

Með frumvarpinu er lagt til að 14. viðauki við mannréttindasáttmálann sem ráðherranefnd Evrópuráðsins samþykkti þann 13. maí 2004 verði lögfestur. Viðauki þessi felur aðallega í sér breytingar á eftirlitskerfi sáttmálans, einkum hvað varðar meðferð kæru á fyrstu stigum og fullnustu dóma Mannréttindadómstólsins. Helsta markmið viðaukans er að auka skilvirkni Mannréttindadómstóls Evrópu svo að markmiðum sáttmálans um að vernd mannréttinda verði náð, en á síðustu árum hefur málafjöldi fyrir dómstólnum margfaldast og hefur dómstóllinn ekki getað sinnt auknum kærufjölda með fullnægjandi hætti. Dómstólnum bárust 40.943 kærur á árinu 2004 og er það 16% aukning miðað við árið áður. Til samanburðar má geta þess að dómstólnum bárust 30.069 kærur árið 2000 og 11.236 kærur árið 1995. Þá dregur það úr skilvirkni dómstólsins að meira en 90% kærumála uppfylla ekki kæruskilyrði mannréttindasáttmálans og er af þeim sökum vísað frá. Við núverandi kerfi og aðstæður hafa mál safnast upp hjá Mannréttindadómstólnum og til marks um það biðu alls 65.000 mál afgreiðslu í lok árs 2003.

Helsta ástæða fjölgunar kærumála hjá Mannréttindadómstólnum er fjölgun aðildarríkja að Evrópuráðinu og mannréttindasáttmálanum. Frá því að 11. viðauki við sáttmálann var samþykktur árið 1994, sem fól í sér mikilvægar skipulagsbreytingar á Mannréttindadómstólnum, hafa 14 ríki bæst við hóp aðildarríkja og þar með 240 milljón nýir einstaklingar sem sáttmálinn tekur til. Önnur ástæða fjölgunar kærumála hjá dómstólnum er að þekking einstaklinga á efni og kæruheimild mannréttindasáttmálans hefur aukist.

Viðaukanum er einkum ætlað að auka skilvirkni Mannréttindadómstólsins með þrennum hætti. Í fyrsta lagi miðar viðaukinn að því að gera dómstólinn betur í stakk búinn til að takast á við þann mikla fjölda kæra sem reynast ótækar til efnismeðferðar og er af þeim sökum vísað frá. Þannig mun í vissum tilvikum einn dómari, í stað þriggja dómara nefndar áður, geta vísað kærum frá. Í öðru lagi er með viðaukanum bætt við nýju skilyrði fyrir því að kæra teljist tæk til efnismeðferðar. Í því felst að kæru verður vísað frá ef ekki verður séð að kærandi hafi orðið fyrir umtalsverðu óhagræði. Í þriðja lagi verður hægt að afgreiða svokölluð „endurtekin mál“, þ.e. mál þar sem dómstóllinn hefur þegar leyst úr sambærilegum álitaefnum, með skilvirkari hætti en áður. Samkvæmt viðaukanum munu þriggja dómara nefndir hafa heimild til að dæma í slíkum málum í stað sjö dómara deildar eins og málum er háttað núna. Þá verður unnt að ljúka máli með sátt á öllum stigum málsmeðferðar en samkvæmt núgildandi skipan verður aðeins málum sem eru tæk til efnismeðferðar lokið með sátt.

Viðaukinn felur einnig í sér breytingar á öðrum þáttum mannréttindasáttmálans. Sem dæmi má nefna að sjálfstæði dómara er aukið þar sem þeir skulu kosnir til níu ára í stað sex ára samkvæmt núgildandi reglum og án möguleika á endurkjöri. Þá var ráðherranefndinni veitt ný úrræði varðandi eftirlit með fullnustu dóma og Mannréttindadómstólnum falið hlutverk varðandi fullnustu þeirra. Jafnframt verður Evrópusambandinu heimilt að gerast aðili að mannréttindasáttmálanum. Um nánari efni viðaukans vísast til athugasemda V. við frumvarpið.

Herra forseti. Íslensk stjórnvöld hafa staðfest þessa breytingu á mannréttindasáttmálanum og þar sem ákveðið var á sínum tíma að lögfesta sáttmálann hér liggur það fyrir okkur á Alþingi að færa þennan texta einnig í lög til þess að við stöndum þannig að verki sem Alþingi hefur þegar ákveðið. Um leið og ég legg frumvarpið fram vek ég athygli hv. þingmanna á því að umræður eru vaxandi um það í aðildarlöndum Evrópuráðsins að hlutur dómstólsins sé e.t.v. orðinn of mikill og e.t.v. þurfi að líta til fleiri þátta en þessara þegar fjallað er um málefni Mannréttindadómstólsins. Ég hef sjálfur flutt um það ræður og kynnt það sjónarmið mitt að líta eigi til þess hvernig þróunin hefur verið hjá Mannréttindadómstólnum varðandi ýmsa dóma sem fallið hafa þar og áhrif þeirra og túlkun, og spurning sé hvort dómstólnum hafi verið afhent of mikið pólitískt vald með þeirri skipan sem nú ríkir.

Miklar umræður hafa verið um þetta í Danmörku upp á síðkastið. Danski dómsmálaráðherrann hefur hreyft svipuðum sjónarmiðum og ég gerði í ræðu sem ég flutti árið 2003. Síðan ritaði prófessor í lögum við Kaupmannahafnarháskóla, Mads Bryde Andersen, grein um það í Berlingske tidene sunnudaginn fyrir viku síðan að menn ættu að velta því fyrir sér í alvöru hvort danska þingið eigi að taka ákvörðun um að afnema lögfestingu á mannréttindasáttmála Evrópu í Danmörku.

Það eru því mjög róttækar hugmyndir sem fram koma í ýmsum löndum þegar litið er til þróunar á þessu sviði, en ég er ekki að mæla með því að þetta sé gert. Ég vek hins vegar athygli á þessu við upphaf umræðu um frumvarpið til þess að menn átti sig á hverjir straumarnir eru í einstökum löndum. Þau sjónarmið hafa einnig komið fram í Bretlandi sem eru í þá átt að e.t.v. þurfi að skoða verksvið dómstólsins og setja honum skýrari reglur og breyta samþykktum hans og öðrum ákvæðum sem hann starfar eftir til þess að þau falli betur að rétti einstakra landa.

Herra forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. allsherjarnefndar og 2. umr.