131. löggjafarþing — 97. fundur,  21. mars 2005.

Mannréttindasáttmáli Evrópu.

648. mál
[19:36]

Einar Karl Haraldsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér er á ferðinni frumvarp til laga sem sjálfsagt er að hljóti góða og vandaða meðferð í nefnd en kannski er nauðsynlegt að fylgja því úr ræðustól með nokkrum orðum, sérstaklega í tilefni af ummælum hæstv. dómsmálaráðherra áðan, varðandi álitamál og umræður sem upp eru komin, sérstaklega úr vopnabúri hægrisinnaðra stjórnmálamanna og fræðinga ýmiss konar í Evrópu.

Ég held að við hljótum að skoða það þannig að fjöldi mála og kærutilefna sem koma til Mannréttindadómstólsins og byggja á mannréttindasáttmálanum séu til vitnis um að þekking á sáttmálanum og þeim úrræðum sem hann býður upp hafi aukist mikið. Jafnframt hefur aðildarlöndunum fjölgað og því er mikil nauðsyn á að þessi leið sé notuð til að leita réttar síns og fá úr því skorið hvort eðlileg viðmið séu notuð í mannréttindamálum í hverju landi fyrir sig. Það er greinilegt að kæruefnin og tilefni til umkvörtunar eru mörg. En auðvitað er það áhyggjuefni þegar 90% uppfylla ekki skilmálana til slíkra umkvartana. Því er nauðsynlegt að dómstóllinn verði skilvirkari og stjórnkerfi hans og skipulag sé tekið til endurskoðunar líkt og í ýmsum öðrum alþjóðastofnunum og í umgjörð ýmissa alþjóðasamninga í dag.

Mér hefur skilist að umræðurnar í Danmörku snúist einkum um að dómstóllinn hafi í ríkari mæli en áður tekið til greina ýmiss konar efnahagsleg og félagsleg réttindi og talið að þau ættu að heyra undir mannréttindaákvæði sáttmálans. Ýmsar ríkisstjórnir hafa talið að þar væri vegið að sjálfstæði þjóðþinga og rétti ríkisstjórna til að ákveða um félagsleg og efnahagsleg mál án þess að komi til afskipta alþjóðlegra samninga eða dómstóla. Skilningurinn er þá væntanlega sá að slík mannréttindi eigi eingöngu að ná til svokallaðra frelsisréttinda en ekki til félagslegra málefna.

Þarna er verulegur pólitískur ágreiningur sem fróðlegt er að ræða. Hann snertir kannski ekki þetta frumvarp sérstaklega en verður eflaust tilefni til að ræða frekar hér á hinu háa Alþingi.