131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Athugasemd.

[13:34]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Viðskiptaráðuneytið hefur ekki undir höndum upplýsingar úr eða aðgengi að veðmálabókum. Fyrirspurn hv. þm. Ögmundar Jónassonar lýtur beint að upplýsingum úr veðmálabókum. Fyrirspurnin lýtur ekki að eftirliti Fjármálaeftirlitsins með starfsemi banka og annarra fjármálafyrirtækja jafnvel þótt hv. þingmaður, fyrirspyrjandi, reyni að láta í það skína á heimasíðu sinni.

Þótt ljóst megi vera samkvæmt álitsgerð þeirri sem Stefán Már Stefánsson lagaprófessor vann fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi að málefni einstakra fyrirtækja séu einkamálefni en ekki opinber málefni er lúti stjórnvaldi einstakra ráðuneyta ákvað ráðuneytið engu að síður að leita eftir því við FBV að samtökin tækju saman svar við fyrirspurninni. Svarið var síðan í samræmi við álit lagaprófessorsins. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með starfsemi á fjármagnsmarkaði og ég sem ráðherra sem fer með bankamál lít ekki á það sem mitt hlutverk að segja Fjármálaeftirlitinu fyrir verkum í einstökum málum eða segja til um það hvernig það eigi að haga eftirliti sínu frá degi til dags. Þetta er ég búin að segja alloft á hv. Alþingi.

Hv. þingmanni til hugarhægðar er hægt að benda á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins sem öllum er aðgengileg og það sem kemur fram í umræðuskjali, að eftirlitið ætli sér að leggja aukna áherslu á eftirlit með áhættuþáttum sem tengjast auknum lánveitingum til íbúðakaupa. Ég hef fulla trú á því að Fjármálaeftirlitið ræki eftirlitshlutverk sitt á þessu sviði sem og öðrum.