131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Athugasemd.

[13:38]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég held að það sé orðið alveg óhjákvæmilegt að taka til sérstakrar skoðunar á Alþingi hvernig er farið með stöðu Alþingis, rétt til að krefja um upplýsingar og veita m.a. með því framkvæmdarvaldinu það aðhald sem Alþingi er ætlað að gera Það gerist æ oftar að það þyki sjálfsagður hlutur að hafa að engu beiðnir sem koma frá Alþingi í formi fyrirspurna varðandi upplýsingar um almenn málefni. Það er ekki reynt að rökstyðja það með að ekki sé þörf fyrir eða gagnlegt að fá viðkomandi upplýsingar fram í dagsljósið. Nei, menn nálgast slíkar beiðnir orðið með því hugarfari að ef þeim sé ekki beinlínis skylt að veita þær eða hægt sé að knýja þá til þess veiti þeir þær ekki. Menn túlka orðið upplýsingalög í veigamiklum mæli ekki sem upplýsingalög heldur sem leyndarlög, þeir gagnálykta af þeim að allt sem ekki er beinlínis skylt að upplýsa og hægt er að draga menn fyrir dómstóla til að gera eigi að fara leynt. Hver eru rök fjármálafyrirtækjanna og hver eru rök viðskiptaráðuneytisins fyrir því að þessar upplýsingar eigi ekki og þurfi ekki að koma fram í dagsljósið? Engin. Hér er ekki verið að biðja um nafngreindar upplýsingar, ekki um eignir einstaklinga eða viðkomandi fyrirtækja, heldur eingöngu að þessar almennu upplýsingar um fjölda fasteigna flokkaðar eftir mikilvægustu fjármálastofnunum líti dagsins ljós.

Það eru veigamikil rök að baki. Menn vilja átta sig á því hvað þarna er að gerast og hversu langt inn í þennan geira fjármálafyrirtækin eru komin til að höndla með fasteignir eða lóðir. Það er algerlega óásættanlegt að ráðuneytið skuli þá ekki a.m.k. beita þessar stofnanir þrýstingi, beina þangað eindregnum tilmælum o.s.frv. í krafti (Forseti hringir.) upplýsingaskyldunnar til Alþingis.