131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Athugasemd.

[13:41]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Í sjálfu sér geta hæstv. ráðherrar fundið sér leið hverju sinni til að þurfa ekki að svara fyrirspurnum, jafnvel þannig að þeir geta borið fyrir sig álit, lög eða hvaðeina sem þeir vilja. Kannski er þó kjarninn í því að ráðherrar útskýri hvers vegna og með hvaða rökum þeir hafni því að koma fram með svör eða skýringar.

Það mál sem við ræðum hérna er vitaskuld stórmál, þ.e. verðmyndun á fasteignum. Það hefur verið veruleg umræða undanfarnar vikur um það hvort þessi verðmyndun sé eðlileg eða ekki, hvort menn séu að móta þessa verðmyndun, hvort bankarnir taki þátt í henni o.s.frv. Ýmsir stjórnarþingmenn hafa haft á þessu skoðanir og m.a. hefur hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins hlaupið fram á sviðið og lýst því yfir að einhverjir fasteignaheildsalar séu að móta markaðinn. Þetta er umræða sem vissulega er ástæða til að taka og ekkert óeðlilegt við það að við tækifæri eins og þetta taki hæstv. viðskiptaráðherra einhverja ábyrgð á sínum málaflokki og setji inn í umræðuna einhver sjónarmið sem skipta máli. Þess í stað kemur hæstv. viðskiptaráðherra inn með einhvern formalisma og segir: Ég þarf ekki að svara. Mér er ekki skylt að svara. Hæstv. ráðherra notar ekki tækifærið til að taka á í umræðunni og koma fram með sjónarmið sem skipta máli sem kannski rétta markaðinn, sem kannski skýra eitthvað. Nei, það er engin ábyrgð tekin, það er engin ábyrgð, það er engin festa, aðeins notuð lagaleg staða til að þurfa ekki að svara. Ég verð að segja alveg eins og er, virðulegi forseti, að mér finnst það létt í vasa að fara þessa leið og hvað þá að beina hv. þingmönnum sem eru með eðlilegar og skynsamlegar fyrirspurnir inn á heimasíður ríkisstofnana til að finna upplýsingar um þau málefni sem þeir hafa áhuga á.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, eins og er að sá valdhroki sem hér birtist æ ofan í æ á hinu háa Alþingi er alveg fyrir neðan allar hellur.