131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Athugasemd.

[13:43]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Settar hafa verið fram rökstuddar efasemdir um að bankar og fjármálastofnanir hlíti landslögum, staðhæft að þessar stofnanir séu orðnar gerendur á fasteignamarkaði þvert á það sem lögin heimila. Ég stíg þá það skref að óska eftir upplýsingum um þetta efni en fæ þau svör frá ráðuneytinu og hæstv. bankamálaráðherra að engar slíkar upplýsingar sé að hafa. Hæstv. ráðherra ber fyrir sig svar frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja þar sem segir nánast að þetta sé einkamál sem eigi ekkert erindi út í dagsljósið.

Hæstv. ráðherra segir að ég ýi síðan að því á heimasíðu minni að ég hafi beint fyrirspurnum til Fjármálaeftirlitsins. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ástæða er til að spyrja hvort það sé virkilega svo að upplýsingar um þessi efni séu einkamál. Eins og hér hefur komið fram er ekki krafist nafngreindra upplýsinga heldur aðeins almenns eðlis og einvörðungu í því augnamiði að fá úr því skorið hvort farið sé að lögum í landinu. Í fréttum Ríkisútvarpsins fyrir fáeinum vikum kom fram að Fjármálaeftirlitið væri að skoða þessi mál.

Nú verður gengið eftir því á Alþingi við bankamálaráðherra hvort viðskiptaráðuneytið hafi leitað upplýsinga hjá Fjármálaeftirlitinu um athuganir á þess vegum. Það er ráðuneytis og að sjálfsögðu Alþingis að fylgjast með því að eftirlitsstofnanir sinni eftirlitsskyldu sinni og að landslögum sé framfylgt.“

Þetta er mjög skýrt. Hér er ekki verið að ýja að einu eða neinu. Hér er verið að beina mjög skýrum rökstuddum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra og það er óskað eftir skýrum svörum. Svo einfalt er það mál.