131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Athugasemd.

[13:45]

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi óskar eftir skýrum svörum. En málið er, eins og ég tók fram áðan, að ég hef ekki aðgang að veðmálabókum og þess vegna lýtur fyrirspurnin ekki að eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Verið er að óska eftir upplýsingum um fyrirtæki, meira að segja eftir embættum, og eins og ég tók fram áðan liggur fyrir álitsgerð frá lagaprófessor um að málefni einstakra fyrirtækja séu einkamálefni.

Vinstri grænir eru alltaf að flytja tillögur á hv. Alþingi eins og eðlilegt er. Ein þeirra gengur út á að til þess að Fjármálaeftirlitið sé örugglega óháð stjórnvöldum, ríkisstjórn og ráðherra skuli það heyra beint undir Alþingi. Nú er hins vegar hv. þm. Ögmundur Jónasson í þeim stellingum að ég eigi að fara að beina einhverju til Fjármálaeftirlitsins, (Gripið fram í.) þannig að hann er að biðja mig að stjórna yfir Fjármálaeftirlitinu. En flokkur hv. þingmanns krefst þess að Fjármálaeftirlitið sé svo sjálfstætt að það megi ekki einu sinni heyra undir viðskiptaráðherra. Það er því mikið ósamræmi í þessum málflutningi.

Að síðustu vil ég segja að hv. þingmenn Vinstri grænna verða bara að viðurkenna og átta sig á að fyrirtækin í landinu hafa ákveðið svigrúm til starfsemi án þess að um það sé rætt á hv. Alþingi. (Gripið fram í: Óháð lögum.) Það er þannig. Það er að öllu leyti farið að lögum í sambandi við það svar sem ég gaf og ég leitaði til Samtaka banka og verðbréfafyrirtækja sem mér bar ekki skylda til en ég gerði engu að síður og svar þeirra fylgir með svarinu.