131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

659. mál
[13:53]

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Þó að hér sé kannski ekki um stórt mál að ræða eru alla vega á því nokkrar merkilegar hliðar sem vert er að hugleiða og fara vandlega yfir. Þar sem málið mun koma til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og væntanlega fá þar vandlega umfjöllun munu málin ef til vill skýrast eitthvað betur áður en málið verður endanlega afgreitt á hinu háa Alþingi.

Ætlunin er að leggja niður svokallaða tryggingardeild Nýsköpunarsjóðs sem hefur gengist í ábyrgðir og tryggingar fyrir íslensk fyrirtæki sem hafa verið að flytja út vörur til útlanda og kannski fyrst og fremst til landa þar sem efnahagslegur eða pólitískur stöðugleiki er ekki sem skyldi. Þá hefur verið möguleiki á að kaupa eða tryggja sér einhverja ábyrgð á útflutningi á þeim vörum. Þetta hefur því fyrst og fremst verið og er hugsað sem stuðningur við fyrirtæki sem eru að flytja út vörur. Reyndar er ekkert nýtt undir sólinni í þeim efnum, þ.e. svipuð starfsemi er rekin annars staðar. Við erum því ekki með neitt í höndunum sem er einstakt eða séríslenskt fyrirbæri. Hér er um svipaðan eða sambærilegan ríkisstuðning að ræða, ef svo má að orði komast, og samkeppnisaðilar svipaðra eða sambærilegra fyrirtækja hafa a.m.k. á Norðurlöndum og víðar.

Þess vegna vaknar spurningin: Er ástæða til að leggja niður aðstoðina við fyrirtæki sem eru hugsanlega að vinna nýja markaði þar sem nauðsynlegt er að kaupa sér einhverjar ábyrgðir vegna óstöðugleika á mörkuðunum? Þó að það hafi ekki komið skýrt fram í framsöguræðu hæstv. viðskiptaráðherra held ég að starfsemin hafi verið stunduð meira og minna frá 1970, kannski ekki á sama hátt og undanfarin þrjú ár. Sumir vilja orða það þannig að það hafi verið meira og minna tilviljanakennd pólitísk afskipti af þessum málum fram undir 2002 þar til sá samstarfssamningur var gerður sem hæstv. viðskiptaráðherra vísaði til og fólk hefur fullyrt að eftir það hafi verið tekin upp vönduð og fagleg vinnubrögð og því megi segja að ekki sé komin full reynsla á það hvort þetta geti orðið sú aðstoð sem skipt gæti verulegu máli til lengri tíma litið.

Ég veit að deildin hefur unnið í samstarfi við sambærilega deild í Svíþjóð og sú deild hefur smám saman safnað upp eigin fé. Ég held að sænska deildin hafi starfað frá 1933 og að eigið fé þeirrar deildar sé nú u.þ.b. 3,1 milljarður sænskra kr. Þetta hefur því verið tekjuskapandi fyrir Svíana auk þess að vera stuðningur við útflytjendur. Samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef hefur reyndar sænska fyrirtækið Ericsson verið helsti viðskiptavinur deildarinnar í Svíþjóð. Það er því ekki hægt að segja að deildin hafi einungis verið að styðja veik eða lítil fyrirtæki, heldur tekið þátt í miklu meiri og stærri uppbyggingu.

Það er því full ástæða fyrir okkur að skoða þetta í þessu ljósi og velta því fyrir okkur hvort við séum með niðurlagningu sjóðsins að skaða samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja til að vinna nýja markaði á sínu sviði. Ég ætla ekki að fullyrða neitt um það en ég held að þetta verði eitt af því sem verði mjög vandlega skoðað í hv. efnahags- og viðskiptanefnd.

Einnig hefur komið fram að það tap sem vísað er til í fylgiskjali frá fjármálaskrifstofu með því frumvarpi sem við ræðum eigi kannski rót sína að rekja til þess tíma þegar fagleg og vönduð vinnubrögð voru ekki eins og þau eru í dag, þ.e. þegar meira var um pólitísk afskipti og því harður dómur að kveða upp úr um það nú að hægt sé að vísa til þeirra raka og þeirra ástæðna að leggja starfsemina niður. Langstærsta tapið þar, ef ég man þetta rétt, er vegna rússneskra togara sem gera átti upp í Slippstöðinni á Akureyri og víðar á síðasta áratug og að til þess tíma megi rekja það mikla tap sem vísað er til sem er á fjórða hundrað milljónir. Ég held að hið mikla tjón sé frá árinu 1997.

Einnig er vert að nefna að hér er um mörg merk íslensk fyrirtæki að ræða sem hafa leitað eða kunna að leita eftir aðstoð þessarar deildar, t.d. Össur, Flaga, Sæplast o.fl. Ég vil a.m.k. ekki kveða upp úr um það núna án þess að hafa skoðað þetta frekar hvaða afstöðu við höfum til þessa máls. En ég held að það sé alveg ljóst að með frumvarpinu er verið að vega að samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja borið saman við þá aðstöðu sem svipuð eða sambærileg fyrirtæki hafa erlendis.

Samkvæmt upplýsingum mínum, eftir hið nýja skipulag sem stundum er kallað hin faglegu vinnubrögð sem tekin voru upp árið 2002 í kjölfar þess samstarfssamnings sem hæstv. ráðherra vitnaði til áðan, hefur TRÚ, en það er sú skammstöfun sem deildin gengur undir, veitt ábyrgðir vegna vörusölu íslenskra fyrirtækja fyrir um 1,1 milljarð og fullyrt er að það sé ólíklegt að til þeirra samninga hefði verið stofnað ef þessi deild hefði ekki verið til staðar. Því er ljóst að hér er um mikla hagsmuni fyrir íslenskt samfélag að ræða ef hægt er að koma á viðskiptum og viðskiptasamningum jafnvel við svæði þar sem bæði pólitískur og efnahagslegur stöðugleiki er ekki sem skyldi, ef menn eru tilbúnir að láta á það reyna hvort þar sé hægt að vinna markaði. Það er einnig ljóst að ef vel tekst til mun sjóðurinn smám saman byggja upp eigið fé á sama hátt og gerst hefur til að mynda í Svíþjóð, en ég veit að þessi deild hefur átt gott samstarf við Svía og þeir hafa m.a. tekið að sér áhættumat í þeim tilvikum þar sem umsóknir hafa borist í þennan sjóð.

Virðulegi forseti. Þó að ég hafi sagt áðan að ég sé kannski ekki með fullmótaða afstöðu til málsins á þessu stigi þá hallast ég að því að ástæðulaust sé að gefast upp strax þegar fyrir liggur að það er þó þessi árangur af starfinu, þ.e. búið að koma á viðskiptasamningum hjá íslenskum fyrirtækjum fyrir á annan milljarð króna á árunum 2003 og 2004, sem hugsanlega hefðu ella ekki komist á. Það er einnig ljóst að íslensk fyrirtæki kunna að sjá sér hag í því að flytja fyrirtæki sín eða starfsstöðvar til landa sem hafa upp á svona möguleika að bjóða. Ég held að við verðum að gæta þess að fara ekki of hratt í að leggja deildina niður því það er einu sinni svo að það skiptir okkur öllu að tryggja sölu á þeim afurðum sem við flytjum út og að skapa okkur nýja markaði.

Það er skoðun mín og innlegg í þessa umræðu að það verði að skoða niðurlagningu þessarar deildar mjög vandlega. Þó ég hafi ekki skýra afstöðu til málsins eru fyrstu viðbrögð mín þau að miðað við þá reynslu sem komin er af þeim tveimur árum þar sem hin faglegu vinnubrögð hafa ráðið för þá sé a.m.k. einhver sjáanlegur árangur. Ég held að við eigum að fara okkur hægt í að leggja þetta starf niður í einu vetfangi. Vel má vera að finna megi annan flöt á því. Vel má vera að færa megi þessa deild frá Nýsköpunarsjóði og að hægt sé að vinna þessa vinnu í hlutastarfi annars staðar, en ég held að ekki sé ástæða til að rjúka upp til handa og fóta af ekki meira tilefni en hér liggur fyrir.