131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

659. mál
[14:14]

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf):

Herra forseti. Ýmsar upplýsingar hafa komið fram í máli hv. þingmanna en mig langar að bæta örfáum atriðum við.

Hæstv. viðskiptaráðherra sagði í framsögu sinni að lítill áhugi væri á sjóðnum þrátt fyrir mikla kynningu og jafnframt að miklar ábyrgðir hefðu fallið á sjóðinn á síðustu árum. Eins og fram kom í máli hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar er nýlega búið að endurskipuleggja sjóðinn og hann hefur í raun aðeins starfað í tvö og hálft ár eftir nýju skipulagi. Þetta nýja skipulag felur m.a. í sér að allar umsóknir sem til sjóðsins berast eru áhættumetnar af sænskum sambærilegum lánasjóði og gilda fullkomlega sömu reglur um íslensku umsóknirnar eins og væru þær sænskar. Þær ábyrgðir sem fallið hafa á sjóðinn, tvær stórar, eru báðar frá því fyrir þessi breyttu vinnubrögð hjá sjóðnum. Þær umsóknir hefðu væntanlega ekki fengið fyrirgreiðslu hefðu þær gengið undir sambærilegt áhættumat og nú er viðhaft. Það er jafnframt mat annars staðar í Evrópu, og þess ber að geta að sambærilegir sjóðir eru alls staðar reknir í kringum okkur, í viðmiðunarlöndum okkar. Það er líka búið að koma upp sambærilegum sjóðum í austantjaldslöndunum þannig að það er skýrt vitni um að slíkir sjóðir, slík fyrirgreiðsla við atvinnulífið, eru taldir nauðsynlegir. Í nágrannalöndum okkar er talið að 6–7 ár þurfi til að vinna slíkum sjóðum markað og kynningu. Mér sýnist því rangt mat hjá hæstv. viðskiptaráðherra að það dragi úr þörfinni eða áhuganum á sjóðnum. Eins og allir vita er langt ferli að kynna nýja vöru og vinna henni markað en eitt af því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera undanfarið er að kynna þennan sjóð og möguleikann sem hann felur í sér fyrir hugsanlegum viðskiptavinum erlendis.

Þess má geta að m.a. Marel hefur nýtt sér þessa þjónustu, og ekki til viðskipta við þróunarlönd eða lönd sem teldust hugsanlega vafasöm, heldur á Bandaríkjamarkaði. Það er mjög líklegt að ef þessi fyrirgreiðsla verður lögð af á Íslandi flytji fyrirtæki, t.d. eins og Marel sem hefur dótturfyrirtæki erlendis þar sem þessi þjónusta er fyrir hendi, þjónustu sína þangað. Þar með sjáum við hvernig við stöndum hér í atvinnumálum á Íslandi.

Meðal fyrirtækja sem nýta sér þessa þjónustu eða hafa hugsað sér að nýta hana eru 3X-Stál á Ísafirði, Marel, Össur og fleiri fyrirtæki sem við viljum gjarnan hrósa okkur af. Ég tel það mikið feilspor sem hæstv. ráðherra stígur með þessu frumvarpi. Ég tel reyndar mjög líklegt að umsagnir komi úr atvinnulífinu sem staðfesti þá skoðun okkar sem höfum talið að hér sé verið að stíga rangt spor.