131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

659. mál
[14:28]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef setið í salnum og hlustað á þær umræður sem hér hafa farið fram. Ég ætlaði ekki að blanda mér í þær en eftir að hafa heyrt hæstv. ráðherra fara hér með svör við þeim spurningum sem upp voru bornar í umræðunum get ég eiginlega ekki annað. Ég las þetta frumvarp til laga um tryggingardeild útflutningslána og velti fyrir mér hver væri raunveruleg ástæða fyrir því að verið væri að leggja til að þessi sjóður yrði lagður niður. Ég taldi að við mundum fá að heyra það mjög skýrt frá ráðherra hér við umræðuna. Ég gat ekki lesið meginástæðuna út úr frumvarpinu en ég get ekki heldur séð að ráðherra hafi svarað þeim spurningum sem hér voru bornar upp.

Hæstv. ráðherra segist hafa gert þetta að mjög yfirveguðu ráði, sér eftir þessu, það sé búið að gera tilraun en eftirspurnin hafi ekki verið mikil. Ég hafði skilið það af lestri greinargerðar með frumvarpinu að meginástæðan fyrir því að verið væri að hætta þessu væri e.t.v. að talsvert mikið tap hefði orðið og að reksturinn undanfarin ár hefði ekki staðið undir rekstrarkostnaði.

Þá hlýtur maður að velta fyrir sér: Er ekki kostur í stöðunni að reyna að efla þetta starf frekar en að leggja það niður? Ef önnur Norðurlönd telja sig þurfa að hafa svona sjóði til að styðja við sinn útflutning, hvernig stendur á því að Íslendingar þurfa það ekki líka? Maður veltir fyrir sér hver ástæðan sé fyrir því að eftirspurnin sé þá ekki meiri en svo, á sama tíma og hér er mikil sprotastarfsemi í gangi og mörg fyrirtæki að hefja starf og útflutning. Getur það verið vegna þess að fyrirtækjunum hafi ekki verið nægilega vel tekið eða þau ekki talið sig eiga þarna innkomu vegna þess að kynningin hafi ekki verið nægilega mikil á þessu starfi?

Mér finnst hæstv. ráðherra skulda þingheimi svör við þessum spurningum: Hver er meginástæðan fyrir því að leggja sjóðinn niður? Er hún sú að eftirspurnin sé lítil eða að tapið á sjóðnum sé mikið?