131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:02]

Flm. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla. Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Drífa Hjartardóttir, Gunnar Birgisson, Hjálmar Árnason, Magnús Stefánsson, Sigurjón Þórðarson og Þuríður Backman.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa nefnd er athugi stöðu staðbundinna fjölmiðla og rekstrarumhverfi þeirra og skili skýrslu. Í skýrslunni verði gerð grein fyrir þróun markaðarins undanfarin ár og, ef þurfa þykir, komið með tillögur um beinar eða óbeinar aðgerðir sem ríkisstjórn og Alþingi gætu gripið til í því skyni að efla rekstrargrundvöll staðbundinna fjölmiðla. “

Virðulegi forseti. Markmið þessarar þingsályktunartillögu er að gerð verði úttekt á þeirri stöðu sem nú er á markaði svæðisbundinna fjölmiðla en slík úttekt getur lagt grundvöll að umræðum um aðgerðir til að efla þessa gerð fjölmiðlunar. Svæðisbundnir fjölmiðlar gegna nú þegar og munu í framtíðinni gegna vaxandi hlutverki fyrir lýðræðislega umræðu.

Í skýrslu sem nefnd menntamálaráðherra um eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi skilaði í apríl sl. kom fram að sú skylda hvílir á íslenska ríkinu að stuðla að fjölbreytni í fjölmiðlun. Skýrslan fjallaði nær eingöngu um málefni þeirra fjölmiðla sem hafa útbreiðslu um land allt en að litlu leyti um staðbundna fjölmiðla. Þótt finna megi dæmi um öflugan fjölmiðlarekstur utan höfuðborgarsvæðisins hafa staðbundnir fjölmiðlar átt undir högg að sækja hér á landi. Nauðsynlegt er að gera sérstaka úttekt á stöðu þessara miðla svo að ræða megi hvort sérstakra aðgerða er þörf til að efla stöðu þeirra.

Í skýrslu fjölmiðlanefndar kemur fram að ríkisstyrkir séu ein þeirra leiða sem til greina komi til að standa vörð um fjölbreytni í fjölmiðlun í landinu. Er þar vísað til tilmæla Evrópuráðsins um að ríki hugi að því hvort ástæða sé til að veita prentmiðlum og útvarpsmiðlum sérstakan fjárstuðning, einkum svæðisbundnum miðlum. Að teknu tilliti til samkeppnissjónarmiða skuli miðað við að stuðningur af þessu tagi sé byggður á hlutlægum sjónarmiðum, á grundvelli gegnsærra reglna og málsmeðferðar sem sæti ytra eftirliti. Ákvarðanir af þessum toga sæti jafnframt reglubundinni endurskoðun til að komast hjá því að þær ýti undir samþjöppun eða óeðlilegan ábata þeirra sem njóta opinbers stuðnings. Nefndin gerði þó ekki tillögu um að þessi leið yrði farin.

Virðulegi forseti. Sameining sveitarfélaga leiðir til þess að þörf íbúanna eykst fyrir staðbundna fjölmiðlun sem í senn veitir upplýsingar um verkefni stjórnvalda og er vettvangur opinberrar umræðu um málefni hvers sveitarfélags. Í greinargerðinni er gert er ráð fyrir að nefndin skili skýrslu eigi síðar en 1. mars 2005 og má segja að ákveðin bjartsýni hafi ríkt hjá flutningsmönnum tillögunnar um að hún kæmist fyrr á dagskrá. Eðlilega raskast þessi dagsetning eitthvað en mikilvægt er þó að hún verði sem fyrst og það verði unnið hratt í þessum málum, ekki síst í samvinnu við þau frumvörp sem verða rædd hér, til að mynda um Ríkisútvarpið o.fl., að við getum haft þessa tillögu með í umræðunni.

Það er mjög ánægjulegt að á þessari tillögu eru flutningsmenn úr öllum flokkum og þakka ég sérstaklega hv. þingmönnum fyrir að hafa tekið vel í þetta mál. Það má segja að það sé nokkuð þverpólitískt og við gerum okkur grein fyrir mikilvægi þess, ekki síst fyrir landsbyggðina. Það eru margir staðbundnir fjölmiðlar í landinu og við höfum orðið vitni að því að það hefur verið erfitt hjá þeim sem vinna að þeim, oftar en ekki í miklu hugsjónastarfi, og því er ekki að neita að einn þáttur í því er til að mynda mjög há póstburðargjöld. Það er dýrt að senda út blöð og þessi blöð eru kannski ekki það öflug að þau séu með eigið fólk í því að dreifa þeim eins og t.d. stóru dagblöðin. Þetta er einn liður í því að gera þeim erfitt fyrir en ég er ekki í vafa um að það eigi að vera hluti af byggðastefnu að efla þessa staðbundnu fjölmiðla. Eins og ég kom inn á áðan erum við að sameina sveitarfélög og það eru uppi miklar áætlanir um að fækka þeim verulega í landinu. Svæðin verða stærri og stærri og þess vegna er mikilvægt að upplýsingaflæðið sé gott.

Við vitum það líka þegar við hlustum á svæðisútvörpin að þar er auðvitað unnt að sinna málefnum svæðanna betur, ýmsu sem mundi aldrei komast að í landsfjölmiðlum, og enginn efast um mikilvægi þess.

Virðulegi forseti. Það væri svo sem hægt að koma inn á margt en ég vil bara ítreka mikilvægi þessa máls. Ég hef fengið góð viðbrögð við því og vil að málinu verði vísað til hv. menntamálanefndar þegar þessari umræðu lýkur. Ég vonast eftir skjótri afgreiðslu þar. Þetta er kannski ekki mjög viðamikið mál og ætti ekki að vera dýrt í framkvæmd en ég held að það sé mikilvægt fyrir okkur að fá það inn í umræðuna, sérstaklega af því að við vitum að á næstunni verður hér töluverð umræða um fjölmiðla í landinu. Þetta þarf að koma þar inn í og verða kortlagt.

Ég vonast því eftir góðum umræðum hér og þakka fyrir.