131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:08]

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Hér er á ferðinni mikilvægt og gagnmerkt mál sem ég er einn flutningsmanna að, enda er ég sannfærður um mikilvægi þess að gera úttekt á stöðu svæðisbundinna miðla eða svæðisfjölmiðlanna svokölluðu, sérstaklega þá prentmiðlanna eins og hér um ræðir.

Þeir eru fjöldamargir um allt land. Í fyrsta lagi þarf að kortleggja stöðu þeirra nú, skilgreina með hvaða hætti væri hægt að koma að stuðningi við rekstur þeirra því að ég er sannfærður um að hann þarf að vera til staðar. Ég held að við þurfum að styrkja útgáfu þessara miðla með einhverjum sanngjörnum og gagnsæjum hætti eins og tillagan tekur sérstaklega til og að sjálfsögðu þarf að skilgreina hvaða miðlar eigi kost á slíkum styrkjum og hverjir ekki. Prentmiðlarnir úti um allt land eru mjög fjölbreyttir og margbreytilegir. Það eru áskriftarblöð eins og Sunnlenska fréttablaðið, það eru blöð sem fara í aldreifingar á hvert heimili í ákveðnum fjórðungi eins og Glugginn, á Suðurlandi líka. Svo eru kannski hefðbundnari dagskrárblöð eða auglýsingablöð sem gera út á það að þeim er dreift á litlu svæði, margar auglýsingar frá viðkomandi stað, en leggja minna upp úr fréttum og samfélagslegu efni öðru. Það þarf að skilgreina hve stór hluti efnis blaðsins skuli vera fréttir og almenns efnis annars en auglýsinga til að miðillinn eigi rétt á einhvers konar ríkisstyrk, t.d. 50:50 eða 60:40, hvernig sem sú lína liggur. Það mundum við sjá þegar sú nefnd sem hér um ræðir væri búin að kortleggja og gera mjög greinargóða úttekt á umfangi, stöðu og fjölbreytileika hinna svæðisbundnu miðla.

Hv. 1. flutningsmaður nefndi í framsöguræðu sinni mikilvægi þessara miðla, ekki síst í ljósi þess að nú eru sveitarfélög að sameinast og samsetning byggðanna að breytast. Ég er sannfærður um það sem þátttakandi í pólitískri umræðu á heimasvæði mínu síðustu árin að þessir miðlar hafa mjög mikið vægi. Þeir hafa einnig mjög aukið vægi. Eftir því sem umhverfi miðlanna á landsvísu hefur breyst hefur vægi prentmiðlanna úti um hinar dreifðu byggðir aukist mjög verulega. Þar fer fram að verulegu leyti hin samfélagslega umræða viðkomandi svæðis, um stöðu sveitarfélaganna, helstu og brýnustu hagsmunamál byggðanna málefni sem eðli málsins samkvæmt fá litla eða enga athygli í landsmiðlunum. Það er ekki pláss fyrir þau þar en í svæðisbundnu miðlunum geisar sú umræða sem skiptir kannski hvað mestu máli fyrir hin einstöku svæði.

Þessir miðlar fræða, miðla og skemmta, hver með sínum hætti og eru, eins og ég upplifi svæðismiðlana, ríkur þáttur í lími hvers samfélags. Þetta er menningarleg miðja fyrir mörg svæði, það eru sterkir svæðismiðlar víða um land, missterkir auðvitað. Sunnlenska fréttablaðið er gefið út sem áskriftar- og sölublað og selt, mjög metnaðarfullt og skemmtilegt fréttablað sem hefur verið gefið út núna í um tvo áratugi á Suðurlandi, ábyggilega oft við mjög erfiðar aðstæður af því að blaðið er, eins og ég sagði áðan, m.a. selt í áskrift og keppir við aðra miðla, landsmiðlana og þá miðla sem er dreift í aldreifingu. Hækkun póstburðargjaldanna á síðustu árum vó mjög að grundvelli þessarar tegundar af svæðismiðlum sem eru kannski að mörgu leyti metnaðarfyllstu og innihaldsríkustu miðlarnir, fréttablöð sem eru annaðhvort seld eða send inn á hvert heimili. Það er orðið ódýrara hlutfallslega að senda núna í svokallaðri aldreifingu en að senda í áskrift. Það þarf að jafna stöðu þessara miðla. Það þarf að gera þeim sem reka svæðisbundnu prentmiðlana kleift að halda þeim gangandi, sérstaklega með tilliti til mjög hárra póstburðargjalda sem settu stórt strik í reikninginn og rekstur þessara blaða.

Flóra svæðisbundnu miðlanna er mjög fjölbreytt og mjög ólík eftir landshlutum. Það væri mjög fróðlegt að gera úttekt á henni og gagnlegt til hliðar við og inn í þá miklu umræðu sem má segja að ríki núna á Íslandi um stöðu fjölmiðlanna, fárið í kringum fjölmiðlalögin og ekki-fjölmiðlalögin í fyrrasumar, Ríkisútvarpsfrumvarpið sem leit dagsins ljós og bíður umræðu hér á Alþingi og væntanlega niðurstöðu fjölmiðlanefndarinnar. Svæðisbundnu og staðbundnu miðlarnir hafa orðið út undan í þessari úttekt og umræðu um framtíð íslenskrar fjölmiðlunar og fyrirkomulag hennar, lagaumgjörð, stöðu ríkismiðlanna þar innan o.s.frv. Það er mjög mikilvægt að staðbundnu miðlarnir séu ræddir í þessu samhengi.

Þess vegna er fagnaðarefni að þessi tillaga skuli loksins vera komin á dagskrá og að við getum afgreitt hana til nefndar. Eins og hv. 1. flutningsmaður nefndi áðan munum við vonandi hafa hraðar hendur og afgreiða hana fljótt út úr nefndinni og aftur til Alþingis þannig að hún geti fengið hér afgreiðslu í vor og verið send ríkisstjórn sem ályktun frá Alþingi í maí. Stór hluti menntamálanefndar er meðal flutningsmanna tillögunnar þannig að framgangur hennar ætti að geta orðið ágætur í nefndinni.

Ég er sannfærður um að við eigum að styðja með einhverjum hætti við bakið á staðbundnu miðlunum, finna réttlátu leiðirnar til þess og þörfina fyrir miðlana í hinu pólitíska samhengi þar sem stjórnmálaumræðan hefur breyst, hún er mun minni í miðlunum en var, samsetning frétta hefur breyst mikið, það er meira einblínt á viðskiptalíf og slíka hluti og það sem gerist á suðvesturhorninu. Mikilvægi miðlanna verður seint til fullnustu haldið fram á sínum svæðum til að berjast fyrir hagsmunum viðkomandi byggða, til að upplýsa fólkið sem þar býr um stöðu mála og hvert stefnir og eins til að líma samfélögin saman og vera hin menningarlega kjölfesta hvers svæðis. Það er því mjög mikilvægt að kortleggja þetta og finna leið til að standa við bakið og efla rekstrargrundvöll staðbundinna miðla.

Ekki síst verður fróðlegt að taka umræðuna í ljósi þess að það frumvarp sem er nýkomið fram um Ríkisútvarpið og er að mínu mati meingallað og tekur alls ekki á því sem það á að taka. En sú umræða bíður betri tíma. Þar til hliðar er áríðandi að hafa stöðu staðbundnu miðlanna að leiðarljósi og hvernig við getum fundið leiðir til að skjóta styrkari stoðum undir þá og gera stöðu þeirra réttlátari og samkeppnishæfari í því fjölmiðlaumhverfi sem nú er uppi, því ég held að aldrei hafi verið meiri þörf fyrir tilvist og útgáfu þeirra miðla en einmitt nú í því gjörbreytta fjölmiðlaumhverfi sem við búum við miðað við fyrir örfáum árum þegar flokksblöðin tröllriðu prentmarkaðnum. Nú eru gjörbreyttir tímar og mikilvægi svæðisbundinna miðla hefur aukist að mínu mati og við þurfum að finna leið til að tryggja rekstrargrundvöll þeirra.