131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að halda eina af mínum frægu stuttu ræðum. Ég kem hingað fyrst og fremst til þess að taka undir þingsályktunartillöguna. Ég held að það sé hið þarfasta mál að kortleggja þennan hluta fjölmiðlaakursins. Það má ef eitthvað er helst gagnrýna að þetta skyldi ekki haft með frá byrjun í þeirri skoðun á lagaumhverfi fjölmiðla og ýmsum hlutum sem hafa verið í gangi þar að undanförnu og mætti margt um það segja en verður ekki gert hér. Staðreyndin er auðvitað sú að þennan þátt má ekki vanrækja, þ.e. það sem lýtur að staðbundnum miðlum eða sérhæfðari miðlum sem hefur mikilvægu hlutverki að gegna í þeirri flóru allri saman. Þar er við mjög erfið rekstrarskilyrði að glíma í mörgum tilvikum og ýmislegt í þróun undanfarinna ára hefur orðið slíkri fjölmiðlun mótdrægt, t.d. hafa póstburðargjöld hækkað mikið og margt fleira gert það að verkum að erfiðara er en áður að stunda slíka fjölmiðlun. Hún er jafnnauðsynleg eftir sem áður og stór hluti af því í mörgum byggðarlögum landsins að skapa samkennd og gefa íbúum þá tilfinningu að þeir tilheyri heild á einhvern hátt að eiga sér sína staðbundnu fjölmiðla og tengiliði, hvort sem það eru staðbundnar útvarpsstöðvar, sjónvarpsstöðvar, rekstur vikublaða, tímarita eða hvað það nú er.

Ég held þar af leiðandi að full ástæða sé til að hvetja til þess að þetta verði skoðað og unnið sem hluta af viðleitni til að ná utan um fjölmiðlastarfsemina í heild sinni. Það má hugsa sér að gera það með ýmsum hætti. Ein leið væri sú að einfaldlega endurskipuleggja þá fjölmiðlanefnd sem hefur verið að störfum og láta hana halda áfram og hafa þetta sem næsta verkefni. Ástæða kynni að vera til að breyta eitthvað samsetningu hennar, þannig að menn með þekkingu á aðstæðum sem við er að glíma í fjölmiðlun vítt og breitt um landið væru þar til staðar í ríkari mæli en er í núverandi nefnd. Hins vegar hefði það þá kosti að ákveðin samfella væri í verkinu og þetta væri frá byrjun hluti af þeirri heild sem þetta auðvitað á og þarf að vera. Við erum miklir eftirbátar ýmissa nágrannaríkja þar sem stutt er myndarlega við bakið á slíkri starfsemi af ríkinu, fylkjum eða sveitarstjórnum og full ástæða til að þetta sé skoðað hér eins og annars staðar.

Þar af leiðandi tek ég undir hugsunina og megintilgang þingsályktunartillögunnar og vona að það verði skoðað af alvöru í þingnefnd að afgreiða hana, hvort sem upphafleg tillaga verður óbreytt, að skipa sérstaka nefnd, eða með einhverjum hætti að tengja það við það starf sem er í gangi og unnið hefur verið að undanförnu. Mætti bæði vísa til frumvarpa sem hér liggja fyrir um Ríkisútvarpið, sem er líka hluti af svæðisbundinni fjölmiðlun í gegnum svæðisútvörpin og stöðvar Ríkisútvarpsins úti um landið, eða til fjölmiðlanefndarinnar sem hefur verið að kortleggja landslag fjölmiðla almennt og er í þann veginn að ljúka störfum eða skila áfangaskýrslu einmitt á þessum dögum.