131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:20]

Magnús Stefánsson (F):

Herra forseti. Mig langar að leggja nokkur orð inn í umræðuna um tillögu til þingsályktunar um staðbundna fjölmiðla sem er flutt af þingmönnum allra flokka. Hér er á ferðinni mikilvægt mál að mínu mati, vegna þess að verið er að fjalla um að gera úttekt á stöðu svæðisbundinna fjölmiðla í landinu og leita leiða til að styrkja grundvöll þeirra. Það vita allir sem í landinu búa að staðbundnu fjölmiðlarnir sem við þekkjum eru gríðarlega mikilvægir, hver á sínu svæði, í hvaða formi sem er. Um er að ræða blöð, útvarpsstöðvar, sjónvarpsstöðvar eða hverju nafni sem þau nefnast. Við vitum að þeir fjölmiðlar sem starfa á landsvísu sinna ekki mikið staðbundnum málum sem þeir fjölmiðlar sem við fjöllum um taka að sér að fjalla um. Það er sama hvort um er að ræða fréttir af viðkomandi svæðum, menningarmál, íþróttamál, umfjöllun um sveitarstjórnarmál eða hvað sem er. Þetta eru einmitt þeir fjölmiðlar sem taka þetta að sér, stærri landsdekkandi fjölmiðlarnir gera það í miklu minna mæli og sumir varla nokkurn skapaðan hlut.

Eins og við vitum eru fjölmiðlarnir sem dekka landið oft fljótir til þegar eitthvað neikvætt gerist úti um landið og eru mættir á svæðið til að fjalla um þau mál, í staðinn fyrir að veita meiri athygli öllu því jákvæða sem á sér stað um allt land. Þetta er auðvitað umræða sem hefur oft komið upp í þessu sambandi.

Ég vil nota tækifærið í umræðunni til að ræða ekki beint um svæðisbundna fjölmiðla, heldur anga af fjölmiðlunum úr Ríkisútvarpinu. Ríkisútvarpið rekur landshlutastöðvar víða um land, á Vestfjörðum, Norðurlandi, Austfjörðum og Suðurlandi. Mér hefur löngum þótt skjóta skökku við hversu Ríkisútvarpið hefur dregið fæturna í því að koma upp landshlutafréttastofu á Vesturlandi. Þar hefur reyndar í seinni tíð verið starfandi mjög öflugur fréttamaður sem hefur sinnt því svæði mjög vel, en ég held að það sé algjört forgangsatriði að Ríkisútvarpið komi upp formlegri starfsemi á Vesturlandi til að fjalla um fjölmargt sem þar á sér stað, því við vitum að umfjöllun um einstaka landshluta í landsdekkandi fjölmiðlunum getur skipt verulega miklu máli, t.d. varðandi ímynd svæða o.s.frv. Ég vildi því nota tækifærið og nefna þetta í þessu sambandi.

Fram hefur komið að rekstrarskilyrði svæðisbundnu blaðanna hafa verið mörgum mjög erfið og mörg dæmi um slíka fjölmiðla sem hafa lagt upp laupana þar sem menn hafa ekki getað haldið þeim gangandi. Við þekkjum líka að starfsemi margra þessara blaða, svo við tölum sérstaklega um þau, eru rekin meira af hugsjón en af rekstrarlegum grundvelli. Það er virðingarvert að líta til þess hversu margir aðilar hafa gert þetta í gegnum tíðina og eru að því núna. Við getum nefnt dæmi um það. Það er því allur gangur á því hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig.

Sú þingsályktunartillaga sem hér liggur fyrir er, eins og ég sagði í upphafi máls míns, mjög góð og ég tel mjög mikilvægt að Alþingi afgreiði hana með einhverjum hætti þar sem farið verður í að gera úttekt á stöðu hinna staðbundnu fjölmiðla, skoða rekstrarumhverfi þeirra o.s.frv., því þetta eru fjölmiðlarnir sem ég tel að hafi að miklu leyti verið settir til hliðar í þeirri umfjöllun sem fram hefur farið um fjölmiðlamál á Íslandi. Ábendingar hafa komið fram í umræðunni um að þessi mál ættu jafnvel að fara til umfjöllunar í fjölmiðlanefnd svokallaðri. Ég held að það sé mjög góð hugmynd sem vert er að ræða. Auðvitað eru hinir staðbundnu fjölmiðlar hluti af íslenskri fjölmiðlaflóru og þess vegna eiga málefni þeirra fyllilega heima í þeirri umfjöllun.

Varðandi fjárhagslegan og rekstrarlegan grundvöll hafa menn rætt um að þessir fjölmiðlar ættu að fá einhvern opinberan stuðning. Ég ætla ekki að fjalla sérstaklega um það hér, en ég tel að hluti af þeirri vinnu sem hér er gerð tillaga um, að auðvitað eigi að fjalla um það. Við skulum ekki útiloka að í framhaldinu komi til þess að þeir fjölmiðlar fái einhvern opinberan stuðning til starfsemi sinnar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra en tek undir og fagna tillögunni og tel einsýnt að þingið ætti að leggja sig fram um að afgreiða hana með einhverjum hætti fyrir vorið.