131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:36]

Magnús Stefánsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Birkir Jón Jónsson er oft og tíðum mjög hvatvís maður í umræðunni og er það út af fyrir sig gott mál. Hann vitnaði til þess að ég hefði gefið einhver fyrirheit um það í ræðu minni að staðbundnir fjölmiðlar fengju framlög á fjárlögum til að styrkja rekstur þeirra. Ég bið hv. þingmann að hlusta betur næst vegna þess að ég sagði að það kæmi auðvitað til greina að slíkt gæti gerst en ég er hins vegar mjög varkár í að gefa yfirlýsingar um ríkisútgjöld og í þessu máli gildir hið sama. Ég bið því hv. þingmann að oftúlka ekki orð mín en auðvitað skil ég hug hans því að hann vill auðvitað að grundvöllur þessara fjölmiðla verði styrkur og það er ágætt mál. Hv. þingmaður á sæti í fjárlaganefnd ásamt mér þannig að þetta er viðkvæmt mál í þeirri flóru sem þar er til umfjöllunar. Ég vildi bara sérstaklega koma hér og árétta það við hv. þingmann.