131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:37]

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er ekki á hverjum degi sem maður lendir í því að fá andsvör frá tveimur félögum sínum úr eigin þingflokki en það er staðreyndin í dag rétt fyrir páska. Ég taldi að hv. þingmaður hefði haft uppi góð orð um þessa starfsemi og þessa staðbundnu fjölmiðla. Vitaskuld munum við, ég og hv. þm. Magnús Stefánsson, taka umræðu í haust um framtíð þessara miðla samhliða fjárlagagerð án þess að nokkru hafi verið lofað hér af hv. formanni fjárlaganefndar þingsins. Að sjálfsögðu skiptir miklu máli, sérstaklega í þessari umræðu, að formaður fjárlaganefndar þingsins hafi góðan hug til þessarar þingsályktunartillögu, enda er hann einn af flutningsmönnum hennar, og ég tek fram að flutningsmenn að tillögunni eru þingmenn úr öllum þingflokkum sem sæti eiga á Alþingi. Því vonast ég til þess ásamt hv. þingmanni að þingsályktunartillagan eigi greiða leið í gegnum þingið.