131. löggjafarþing — 98. fundur,  22. mars 2005.

Staðbundnir fjölmiðlar.

234. mál
[16:38]

Flm. (Dagný Jónsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil í lok umræðunnar þakka fyrir afar góða, málefnalega og skemmtilega umræðu. Það er greinilega smágalsi í hópnum nú rétt fyrir páskafrí. En það sem komið hefur fram í umræðunni sýnir að þó að málið sjálft sé í rauninni ekki stórt skiptir það gríðarlegu máli og mér finnast mörg rök hafa bæst við og margt komið fram. Ég vil sérstaklega taka fram að mér finnst það góð hugmynd sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom inn á og einnig hv. þm. Magnús Stefánsson að tengja þessa tillögu starfi fjölmiðlanefndarinnar. Ég held að það væri jákvætt skref, sérstaklega vegna þess að þar er fólk sem búið er að leggja í mikla vinnu varðandi fjölmiðlaumhverfið Íslandi. Þar er komin mikil þekking og reynsla og ætti því ekki að þurfa að leggja í mikla grunnvinnu við það og ég held að það væri mjög álitlegt fyrir okkur í hv. menntamálanefnd að skoða það.

Eins og ég sagði vil ég þakka fyrir þessa umræðu og vona og treysti að hv. menntamálanefnd afgreiði málið hratt og vel. Við erum með hv. formann menntamálanefndar sem einn af flutningsmönnum tillögunnar og efast ég ekki um að hann taki vel í málið. — Nú heyri ég það úr hliðarsölum að hlaupinn er verulega mikill galsi í þingmenn vegna páskaleyfis. — Það er skemmtilegt að vera við umræðu þar sem eintómir framsóknarmenn sitja í salnum en eins og við vitum eru hv. þingmenn allra flokka á þessu máli og margir hafa tekið þátt og vil ég þakka fyrir það.