131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:34]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Ég tel mig knúinn til að ræða um störf þingsins vegna framgöngu forseta þingsins á fundi í morgun með formönnum þingflokka, sem ég sat í forföllum formanns þingflokks Frjálslynda flokksins, hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Á fundinum meinaði hæstv. forseti mér að taka til máls og meinaði mér í raun að fá upplýsingar um gang mála. Ég tel það mjög alvarlegt mál. Hæstv. forseti gengur gegn lýðræðinu með þessum hætti, að meina einum þingflokki að fá upplýsingar um gang mála. Það er óþolandi og algerlega ólíðandi að forseti geri slíkt.

Ég tel mig því knúinn til að fara fram á að hæstv. forseti ræði framgöngu sína við formann Frjálslynda flokksins. Ég hef rætt við formann Frjálslynda flokksins, hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson. Við vorum sammála um að þetta væri ólíðandi. Það verður að taka þetta mál upp. Ég mælist til þess að forseti komi til fundar við formann Frjálslynda flokksins á mánudagsmorgun og ræði þessa framgöngu sína. Það gengur ekki að troða æ ofan í æ á þingflokki Frjálslynda flokksins.

Þær upplýsingar sem ég óskaði eftir en fékk ekki voru t.d. hvað orðið hefði um utandagskrárumræðu við hæstv. forsætisráðherra sem óskað hefur verið eftir. Það hafa ekki fengist nein svör við því og fékkst ekki einu sinni tækifæri til að bera fram þá spurningu. Hver er staða mála hvað varðar þá umræðu?

Einnig hugðist ég spyrja hæstv. forseta (Forseti hringir.) varðandi

(Forseti (HBl): Hv. þingmaður tíminn er búinn.)

fyrirspurn. (Forseti hringir.)