131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:36]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Fréttir sem berast úr bankakerfinu hljóta að vekja ríkisstjórnina og reyndar okkur öll til umhugsunar. Í morgun var sagt frá því í fréttum að yfirdráttarlán heimilanna hefðu aukist um 1.500 millj. kr. í febrúar og væri þetta annar mánuðurinn í röð sem yfirdráttarlán heimilanna hækkuðu ógnvænlega. Fram kom að fyrstu tvo mánuði hækkuðu yfirdráttarlán um 4,1 milljarða kr. og standa núna í röskum 58 milljörðum kr.

Einkum er umhugsunarvert við þetta að á tímabilinu ágúst til desember á síðasta ári drógust yfirdráttarlánin saman. Á því tímabili sáu margir sér hag í að endurfjármagna yfirdráttarlán með hagstæðari íbúðalánum til lengri tíma sem þá voru í boði frá fjármálakerfinu, frá bankakerfinu. Áður en þessi endurfjármögnun hófst námu yfirdráttarlánin 60,5 milljörðum kr. en nú stefnir í að sama marki verði náð að nýju. Það þýðir að fólk sem nú er búið að veðsetja sig í botn með veði í húsnæði, sem oft er á yfirsprengdu verði, til að ná utan um fjármál sín er aftur komið í þrot. Við slíkar aðstæður má ekkert út af bera.

Af þessu tilefni vil ég vekja athygli á þingmáli sem þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs setti fram, um aðgerðir til að tryggja efnahagslegan stöðugleika. Þar lögðum við m.a. til að Fjármálaeftirlitið hugaði vandlega að áhættumati í bankakerfinu, svo sem hvað varðar áhrif af snöggri gengislækkun krónunnar eða lækkun fasteignaverðs. Markmiðið verði að hraður vöxtur útlána að undanförnu skapi ekki hættu fyrir efnahagslífið og farið veri yfir eiginfjárlágmörk og áhættugrunn fjármálastofnana í því ljósi. Á þessu vil ég vekja sérstaka athygli í ljósi frétta sem berast innan úr fjármálakerfinu.