131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Athugasemd.

[13:47]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er svolítið hissa á því ef hæstv. bankamálaráðherra landsins ætlar ekki að bregðast við þeirri umræðu sem hér hefur farið fram og þeim fréttum sem landsmönnum bárust í morgun. Það er staðreynd að skuldir heimilanna standa núna í 340 milljörðum kr. Yfirdráttarlánin eru að nálgast 60 milljarða kr. og eru komin í svipaðar hæðir og þau voru í síðasta haust en þá óaði alla við því hvernig komið væri.

Menn fögnuðu því að fólk færi að endurskipuleggja fjármál sín þegar bankarnir buðu lán á lægri vöxtum, og Íbúðalánasjóður einnig, en nú virðist stefna í sama óefni og áður. Að mínum dómi og okkar í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði er mikilvægt að þjóðfélagið allt horfi í sameiningu á þessi mál af raunsæi og ábyrgð. Þess vegna ber okkur að ræða þau. Ég var að vekja athygli á tillögu sem við höfum sett fram í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði um að beina því til Fjármálaeftirlitsins að áhættumat fari fram hjá bönkunum, og endurmat. Að sjálfsögðu hefur slík vinna farið fram og fer stöðugt fram en nú þarf að endurmeta þær forsendur sem unnið er samkvæmt, í ljósi þeirra upplýsinga sem okkur eru að berast.

Það er staðreynd að þegar búið er að spenna bogann á þann hátt sem nú hefur verið gert má ekkert út af bera. Þegar tiltekinn hópur fólks eða fyrirtækja getur ekki risið lengur undir skuldbindingum sínum er hætta á því að keðjuverkun verði í samfélaginu. Þetta hefur gerst í þjóðfélögum í kringum okkur, í kringum 1990, í Noregi, Svíþjóð, Finnlandi, Kanada og víðar. Við eigum að horfa á þessi mál af raunsæi og beina varnaðarorðum til þeirra sem utan um þau halda.