131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Skráning nafna í þjóðskrá.

204. mál
[14:02]

Fyrirspyrjandi (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra Hagstofu Íslands kærlega fyrir þessi svör sem voru afar jákvæð. Mér heyrist á öllu að þarna sé einhver vinna komin í gang við það að laga þjóðskrána að þeirri framtíðarmúsík í þeim efnum að auka stafabil þannig að fólk geti skráð lengri nöfn. Það er auðvitað ekki hægt að vera með endalaus stafabil skráð í þjóðskrá. Eins og kom fram gera t.d. gluggaumslög ekki ráð fyrir því. Hins vegar snertir þetta augljóslega, eins og ég kom inn á í fyrri ræðu minni, þúsundir Íslendinga í dag og augljóslega má hækka markið. Það er ekki nema 31 stafabil í dag. Ég er búin að vera að skoða líka gluggaumslög undanfarið eftir að ég las svar hæstv. hagstofuráðherra til hv. þm. Einars Más Sigurðarsonar á sínum tíma og búin að mæla þetta dálítið út. Ég sé að við megum fjölga bilunum upp í 45–60 stafabil. Röksemdina um að þetta sé erfiðleikum bundið vegna gluggaumslaga tel ég heldur léttvæga.

Eins og kom þó fram í máli hæstv. ráðherra eru tölvukerfi í dag orðin miklum mun sveigjanlegri en þau voru þannig að ég sé ekki að það ætti að vera erfiðleikum bundið fyrir fyrirtæki samhliða eðlilegum uppfærslum á hugbúnaði sínum að keyra inn breytingar eins og að auka stafafjöldann.

Enn og aftur fagna ég þessu svari hæstv. ráðherra og vona að þetta komi til framkvæmda sem fyrst.