131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:17]

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Hæstv. ráðherra sagði áðan að Stöðfirðingar ætluðu að fara úr vörn í sókn með Samherja og var mjög ánægð með það. Það er Samherji sem er að leggja niður þarna starfsemi. Með því að einkavæða aðganginn að auðlindinni hefur fólki verið fyrirmunað í þessum litlu sjávarþorpum að hefja útgerð og grundvellinum undir þeim byggðum sem um er að ræða hefur raunverulega verið kippt burt.

Það er þetta sem hefur auðvitað gerst og það er á því sem þarf að taka, það þarf aftur að verða til einhvers konar atvinnufrelsi fyrir fólkið í þessum sjávarbyggðum. Annars munu þær aldrei rétta úr kútnum — nema þeim verði breytt í eitthvað allt annað en þær eru. En er það skynsamlegt? Ég tel ekki. Ég tel að það sé full ástæða til þess að það séu sjávarbyggðir allt í kringum landið eins og hafa verið.