131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Atvinnubrestur á Stöðvarfirði.

496. mál
[14:20]

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Herra forseti. Á þingmönnum hv. stjórnarliðsins er að heyra að allt sé til fyrirmyndar, bæði framganga Samherja og síðan þessi verkefni sem eru í gangi hjá Þróunarstofu Austurlands. Það er verið að kanna samsetningu byggðar, það er verið að leita eftir sóknarfærum. En ég fór austur og ég sá að byggðin var í kringum 250 manns. Ég sá hvaða sóknarfæri eru á einmitt þessum stað, og það er sjávarútvegur. Það þarf auðvitað að veita þessum byggðum á ný atvinnuréttindi. Það þarf ekki að búa til einhver „dúblídúbl“-verkefni sem ekkert innihald er í. Við höfum séð það, því miður, hv. þm. Dagný Jónsdóttir, því að hér hafa verið sett niður verkefni af ekki ómerkari mönnum en sjálfum hæstv. forsætisráðherra. Hann hleypti af stokkunum verkefni á vegum Íslenskrar miðlunar og lofaði þar, að sögn heimamanna sem ég heimsótti í síðustu viku, miklum verkefnum frá ríkinu. Hverjar voru efndirnar? Það var allt svikið, því miður.

Þess vegna er orðið tímabært að stjórnarliðar svari því hvað eigi í rauninni að gera. Á að koma með einhver verkefni til að drepa málum á dreif, eins og Íslensk miðlun var, og lofa jafnvel einhverju og einhverju sem síðan er svikið, eins og verkefnum frá ríkinu, eða á eitthvað raunverulegt að koma? Það stendur óvart í flokkssamþykktum Framsóknarflokksins að það ætti að tryggja byggð í sjávarbyggðunum, og því var fólkinu lofað fyrir síðustu kosningar. Síðan er það allt gleymt eftir kosningar og hæstv. byggðamálaráðherra segir á heimasíðu sinni að það sé af og frá, það sé bara verið að föndra við byggðir þegar talað er um að tryggja sjávarbyggðunum atvinnuréttindi. Við erum (Forseti hringir.) algerlega ósammála þessu í Frjálslynda flokknum, hæstv. forseti.