131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:37]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég beini fyrirspurn til hæstv. sjávarútvegsráðherra um hvalveiðar í vísindaskyni. Eins og kunnugt er hafa Íslendingar ekki stundað hvalveiðar frá 1986 vegna hvalveiðibanns Alþjóðahvalveiðiráðsins þangað til fyrir tveimur árum að stjórnvöld tóku ákvörðun um að hefja svokallaðar hvalveiðar í vísindaskyni. Hafa nú að öllum líkindum verið veiddar um 60 hrefnur síðastliðin tvö sumur og uppi eru áform um að halda þessum veiðum áfram.

Þessi ákvörðun ríkisstjórnarinnar hafa mætt mikilli andstöðu ekki síst þeirra sem starfa innan ferðaþjónustunnar. Sérstaklega hafa forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja verið harðorðir í garð stjórnvalda vegna þessarar þróunar mála.

Nú eru margar hliðar á þessu máli og ein þeirra lýtur að kostnaði þeim sem af vísindaveiðunum hlýst. Þó að hvalveiðar hafi á árum áður verið ábatasöm atvinnugrein er það liðin tíð, ekki síst vegna þess að ekki eru lengur til staðar neinir útflutningsmarkaðir fyrir hvalaafurðir. Þetta verður að hafa í huga þegar ákvarðanir eru teknar um áframhald vísindaveiða og spurning hvort fyrirsjáanlegar veiðar eigi eftir að valda okkur meiri skaða en ávinningi, a.m.k. í þjóðhagslegu tilliti.

Ljóst er að við höfum eytt talsverðum fjármunum í að kynna málstað okkar á erlendri grundu og vil ég í því sambandi nefna svar frá hæstv. sjávarútvegsráðherra sem mér barst við fyrirspurn á síðasta löggjafarþingi þar að lútandi. Svarið er á þskj. 1658 og er mál nr. 57. Þar kemur í ljós að á árunum 2000–2003 eyddum við á annað hundrað milljónum króna í að kynna málstað okkar í hvalveiðimálum á erlendri grundu. Nú er ljóst að við höfum verið að auka við þessi fjárútlát, m.a. með vísindaveiðunum sjálfum. Spurningar mínar til hæstv. ráðherra lúta að kostnaði við áframhaldandi vísindaveiðar og að því hversu miklir fjármunir hafa verið settir í þær veiðar. Annars vegar beint af fjárlagalið Hafrannsóknastofnunar og hins vegar með sérstökum fjárframlögum úr ríkissjóði. Einnig leikur mér hugur á að vita hve mikið af hvalkjöti hafi verið tekið á land þau tvö ár sem um er að ræða, þ.e. 2003 og 2004, og hversu mikið af því kjöti liggi enn einhvers staðar óselt.

Loks langar mig að heyra frá hæstv. ráðherra hver greiði kostnaðinn við geymslu á þessu óselda kjöti og hversu hár sá kostnaðarliður er orðinn frá 2003. Það kemur síðan fram í athyglisverðri frétt í Morgunblaðinu í morgun sem fjallar um verslun með hvalaafurðir að Íslendingar virðast vera í sjálfheldu að þessu leyti þar sem staðfest er að hrefnan sem er á válista númer eitt, þ.e. er í mestri hættu samkvæmt CITES-samningnum, er núna viðurkennd sem tegund í útrýmingarhættu (Forseti hringir.) og afurðir af henni þar af leiðandi bannaðar í millilandasölu.