131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:40]

sjávarútvegsráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrirspurnina. Fyrst er spurt hver sé áætlaður kostnaður við áframhaldandi vísindaveiðar á árunum 2005 og 2006. Svarið við því er á þann veg að ekki hefur verið ákveðið hversu margar hrefnur verða veiddar á árunum 2005 og 2006. Við eigum enn þá í samningaviðræðum við Félag hrefnuveiðimanna og þeim viðræðum er ekki lokið og því óvíst hver kostnaðurinn verður. Hafrannsóknastofnun hefur áætlað að kostnaður hennar á árinu verði 58,6 millj. kr. og þar er meðtalin 11,1 millj. kr. vegna flugtalningar á hvölum.

Í öðru lagi er spurt hver kostnaður við vísindaveiðar á hrefnu árin 2003 og 2004 hafi verið. Kostnaður Hafrannsóknastofnunar var 20,7 millj. kr. árið 2003 og kostnaður vegna veiða Félags hrefnuveiðimanna var 8,5 millj. kr., samtals 29,2 millj. kr. Árið 2004 var kostnaður Hafrannsóknastofnunar 41,8 millj. kr., þar af 10,3 millj. kr. vegna flugtalningar og vegna samnings við Félag hrefnuveiðimanna var kostnaðurinn 15,1 millj. kr., samtals 56,9 millj. kr.

Í þriðja lagi er spurt hve mikið hvalkjöt hafi verið tekið á land á árunum 2003 og 2004 og hve mikið af því sé enn óselt. Á árinu 2003 voru 25 hrefnur veiddar og 36 á árinu 2004. Samkvæmt samningi við Félag hrefnuveiðimanna annaðist félagið vinnslu, markaðssetningu og sölu á afurðunum. Allar ákvarðanir varðandi þau málefni eru í höndum Félags hrefnuveiðimanna og kostnaður samfara starfseminni á þeirra herðum. Upplýsingar um birgðastöðu liggja því ekki fyrir.

Í fjórða lagi er spurt hver greiði kostnað við geymslu á hinu óselda kjöti og hversu hár sá kostnaður sé orðinn síðan 2003. Markaðssetning og sölukostnaður, þar með talinn geymslukostnaður, er í höndum Félags hrefnuveiðimanna og sjávarútvegsráðuneytinu og Hafrannsóknastofnuninni óviðkomandi.

Varðandi inngang hv. þingmanns kannast ég ekki við mikla andstöðu við vísindaveiðar á hrefnu, sérstaklega ekki innan lands, þó að þær raddir hafi heyrst en þær hafa verið mjög fáar. Ég kannast ekki heldur við að vísindaveiðarnar hafi valdið nokkrum skaða sem teljandi er og á ekki von á að þær muni gera það í framtíðinni.

Ég vil síðan benda hv. þingmanni á að kynningin sem hún nefndi í inngangi sínum á málstað okkar erlendis er samkvæmt ákvörðun Alþingis með þingsályktun frá árinu 1999. Ég verð hins vegar líka að lýsa undrun minni á ókunnugleika hv. þingmanns þegar hún vitnar í frétt í Morgunblaðinu um CITES-listun á hrefnunni. Við erum með fyrirvara við þá listun ásamt fleiri þjóðum, þar á meðal Norðmönnum og Japönum. Það hafa þráfaldlega farið fram atkvæðagreiðslur innan CITES um að færa hrefnuna neðar á listann og meiri hluti var fyrir því innan CITES að gera það í síðustu atkvæðagreiðslu en hins vegar þarf aukinn meiri hluta til að breyta listun hjá stofnuninni sem gengur undir nafninu CITES. Vegna fyrirvara okkar og fyrirvara Norðmanna og Japana er heimilt að stunda viðskipti með hvalaafurðir á milli þessara þjóða. Það er því ekki rétt sem hv. þingmaður ýjaði að að við hefðum enga markaðsmöguleika fyrir afurðir okkar.