131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Hvalveiðar í vísindaskyni.

600. mál
[14:48]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Mér finnst mjög sérkennilegt að heyra að hrefnan skuli vera á lista yfir dýr í útrýmingarhættu. Það er í rauninni ekki traustvekjandi fyrir þá sem telja að dýr séu í útrýmingarhættu þegar stofninn er svo gríðarlega stór sem raun ber vitni. Í skýrslum Hafrannsóknastofnunar kemur fram samkvæmt flugtalningu að um 43 þúsund dýr séu hér við land. Það er mjög sérstakt og í rauninni tel ég að samtök sem segja dýr í útrýmingarhættu, sem svona mikið er af, skerði trúverðugleika sinn með því að halda þessu fram. 36 dýr sem tekin eru, eða hvað það er, munu ekki skaða stofninn að neinu marki. Ég tel einmitt að það sé mjög jákvætt fyrir náttúruverndarsamtök að rannsóknir séu stundaðar og dýr séu tekin (Forseti hringir.) og þeirra upplýsinga aflað sem nauðsynlegt er.