131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Rækjuveiðar í Arnarfirði.

608. mál
[14:53]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að bera fram litla spurningu til hæstv. sjávarútvegsráðherra sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

Hver eru fiskifræðileg rök fyrir því að rækjuveiðar voru ekki leyfðar í Arnarfirði síðastliðið haust?

Fréttir bárust um að sennilega yrði ekki leyft að veiða rækju á þessum áður mjög svo gjöfulu rækjumiðum vestur á fjörðum. Mig minnir að fréttir af þessu hafi fyrst komið í Morgunblaðinu í október og þær voru vægast sagt ískyggilegar, alla vega samkvæmt textans hljóðan.

Ef skýrsla Hafrannsóknastofnunar er skoðuð fyrir aflahorfur fiskveiðiárið 2004/2005 segir þar, með leyfi forseta, um rækjustofninn í Arnarfirði:

„Samkvæmt stofnmati er rækjustofninn í Arnarfirði nærri sögulegu hámarki. Um 750 tonn veiddust á þessu svæði veturinn 2003/2004. Kvendýravísitalan var í meðallagi. Tveggja og fjögurra ára rækja var mest áberandi og mun veiðin fiskveiðiárið 2004/2005 að stórum hluta byggjast á þessum árgöngum. Lagt er til að upphafsafli verði 500 tonn.“

Samkvæmt þessu hefði allt í raun og veru átt að vera í lukkunnar velstandi en eitthvað gerðist. Það hallaði mjög fljótt undan fæti og þegar gögn eru skoðuð, a.m.k. þau gögn sem ég hef komist yfir í gegnum krókaleiðir, rallgögn frá Hafrannsóknastofnun, kemur afskaplega margt í ljós sem mér þykir á vissan hátt mjög forvitnilegt og merkilegt. Gögn Hafrannsóknastofnunar sýna að rækjustofninn í Arnarfirði er búinn að þétta sig saman innst í nyrðri armi fjarðakerfisins, ef svo má segja — og nú geta þeir sem þekkja vel til fyrir vestan séð fyrir sér hvernig Arnarfjörður er í laginu. Þarna var rækjan þegar rallið svokallaða fór fram í febrúar og rétt fyrir utan var síðan mjög mikið af smáþorski og töluvert líka af smáýsu. Uppi eru kenningar um að rækjan hafi hrakist þarna inn eftir undan fiskinum sem hafi stundað afrán á henni. Ef það er rétt er komin upp afskaplega merkileg staða út frá vistfræðilegu og fiskifræðilegu sjónarmiði, staða sem gæti kennt okkur marga athyglisverða lexíu varðandi fiskveiðistjórn til framtíðar.

Mig langar því enn og aftur, eins og ég sagði í upphafi máls míns, að beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra: Hver voru rök fyrir því að banna veiðar? Þau hafa hvergi komið fram.