131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Rækjuveiðar í Arnarfirði.

608. mál
[14:58]

Fyrirspyrjandi (Magnús Þór Hafsteinsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Þetta var nú frekar þunnt fannst mér og stuttaralegt svar hjá hæstv. ráðherra. Ég virði þó viljann fyrir verkið.

Mig langar samt sem áður til að spyrja hvort þau gögn sem lágu fyrir úr þessum rannsóknarleiðangri hafi ekki einmitt vakið upp spurningar í sjávarútvegsráðuneytinu og jafnvel hjá Hafrannsóknastofnun um hvort rétt væri staðið að nýtingu þessa vistkerfis, þ.e. vistkerfisins í Arnarfirði vestur. Hvort hefði ekki verið ráð að reyna að gera eitthvað, finna upp á einhverju merkilegu, sniðugu, athyglisverðu, tilraunakenndri fiskveiðistjórn, ef svo má segja, og notfæra sér einmitt þá einstöku stöðu sem var komin upp í þessu vistkerfi. Til að mynda að athuga hvað mundi gerast ef við t.d. í staðinn fyrir að veiða þá rækju sem var öll í einum haug inni í litlum firði hefðum kannski athugað að reyna að veiða þá upp eitthvað af þeim smáþorski og þeirri smáýsu sem var utar í firðinum og virtist einmitt vera að éta upp alla rækjuna, alla vega var rækjustofninn kominn í mikla varnarstöðu og var innikróaður innst í firðinum. Það væri athyglisvert ef sjávarútvegsráðherra gæti sagt okkur eitthvað um þetta.