131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Meðferðarúrræði í fangelsum.

612. mál
[15:08]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) (Sf):

Ég þakka hæstv. ráðherra svörin og tek undir það að mér finnst mikið framfaraspor að Fangelsismálastofnun ríkisins hefur sett fram mjög skilmerkileg markmið í fangelsismálum og framtíðaruppbyggingu fangelsanna. Einmitt í því plaggi kemur mjög greinilega fram af þeirra hálfu að þeir telja að sú meðferð sem boðið er upp á við komu í fangelsið sé alls ekki fullnægjandi. Þeir segja m.a., með leyfi forseta, að: „... vímuefnameðferðir þær sem bjóðast föngum eru oft og tíðum stuttar og settar fram á röngum tímapunkti fyrir þessa einstaklinga en þeir eiga margir við langvarandi vímuefnavanda að stríða.

Þróunin hefur verið sú sama hér á landi og víðast hvar erlendis, að föngum með alvarlegan fíkniefnavanda hefur fjölgað, svo og óskilorðsbundnum dómum fyrir fíkniefnabrot.“

Jafnframt segir, með leyfi forseta, að stofnunin: „... telur mikilvægt að boðið verði upp á afeitrun, sem er viðurkennd læknis- og hjúkrunarmeðferð og sem hæfist um leið og fangi kemur til afplánunar, svo og skipulagða og árangursmælda vímuefnameðferð sem sé viðhaldið á vímuefnalausri deild í fangelsi.“

Þetta hefur, eins og ég sagði áðan, lengi verið baráttumál þeirra sem þekkja vel til fangelsismála og ekkert síður hefur það verið baráttumál starfsmanna Fangelsismálastofnunar og fangelsanna og svo aðstandenda að koma á þessari skipulögðu meðferð strax við upphaf afplánunar. Ég tel, virðulegi forseti, að stór hluti af því að nýta veruna í fangelsinu sem betrunarvist sé að hjálpa þeim sem möguleiki er á að hjálpa til þess að standa sig betur þegar þeir koma aftur út í lífið og minni á að árið 2000 var hafinn undirbúningur að vímuefnalausri deild á Litla-Hrauni og þjálfun starfsmanna. Síðan stöðvaðist það því miður vegna fjárskorts og segja má að það sé jafnt á ábyrgð Alþingis og ráðuneytis.