131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Varnarviðbúnaður við eiturefnaárás.

624. mál
[15:11]

Fyrirspyrjandi (Björgvin G. Sigurðsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir nokkru beindi ég fyrirspurn til ráðherra í fyrirspurnatíma í þinginu vegna þess að ríkisstjórnin samþykkti á sínum tíma, þann 21. október 2003, tillögu hæstv. dómsmálaráðherra um að mynda starfshóp sem hefði það verkefni að gera úttekt á varnarviðbúnaði vegna hugsanlegrar notkunar efna-, sýkla- og geislavopna hér á landi. Starfshópurinn var skipaður embættismönnum undir forustu ráðuneytisins en utanríkis-, heilbrigðis- og umhverfisráðuneyti komu enn fremur að myndun hópsins. Var hópnum jafnframt falið að gera tillögur til úrbóta með það að markmiði að viðbúnaður hér á landi yrði fullnægjandi, eins og sagði í tilkynningu frá dómsmálaráðuneytinu.

Í greinargerð með tillögunni kom fram að varnir gegn gereyðingarvopnum á borð við eiturefna-, sýkla- og geislavopn væru á meðal helstu viðfangsefna ríkisstjórna eins og staðan væri í heiminum nú og að hættan á hermdar- og hryðjuverkum og þar með að slíkum vopnum kynni að verða beitt væri talin ein stærsta ógn fyrir borgara hins vestræna heims nú á tímum. Þetta var undirstrikað mjög rækilega í þessari tilkynningu og undir þetta tók Morgunblaðið í leiðara sínum 24. október þar sem sagði m.a., með leyfi forseta:

„Við Íslendingar erum ekki óhultir frekar en aðrar þjóðir og verðum því að grípa til viðeigandi ráðstafana.“

Hæstv. dómsmálaráðherra svaraði því þannig til að þessi starfshópur hefði skilað af sér skýrslu, hann hefði farið yfir hana og um hana verið rætt og hvað ætti að gera í framhaldinu. Í frekara svari sínu sagði hann hins vegar að honum bæri ekki nein skylda til að kynna niðurstöðurnar sérstaklega í þinginu og kom ekki fram í svari hans neitt frekar um efni skýrslunnar eða til hvaða ráðstafana ætti að grípa.

Hér er um að ræða mjög brýnt almannahagsmunamál og er sjálfsagt að almenningi sé kynnt til hvaða ráðstafana eigi að grípa verði annaðhvort slys sem hefði þessar afleiðingar eða hryðjuverk einhvers konar í nálægð við landið, í hafinu eða á landi.

Þess vegna spyr ég hæstv. dómsmálaráðherra:

1. Hverjar eru niðurstöður skýrslu starfshóps embættismanna á vegum þriggja ráðuneyta, sem fjallaði um varnarviðbúnað vegna hugsanlegrar notkunar eiturefna-, sýkla- og geislavopna hér á landi?

2. Hvenær lágu niðurstöðurnar fyrir?

3. Af hverju hafa niðurstöðurnar ekki verið kynntar almenningi?

Ég tel mjög áríðandi, virðulegi forseti, að hæstv. ráðherra kynni rækilega hverjar niðurstöður þessa starfshóps voru. Þær eru að verða tveggja ára gamlar. Hér er um að ræða mjög brýnt almannahagsmunamál og sjálfsagt að fyrir liggi til hvaða ráða sé best að grípa verði slys eða einhvers konar rask af þessum völdum hér á landi.