131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Varnarviðbúnaður við eiturefnaárás.

624. mál
[15:14]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni áhuga hans á þessu máli. Eins og fram kom lýsti hann áhuga sínum á málinu í óundirbúinni fyrirspurn fyrir nokkrum vikum. Hann gerir það nú að nýju með þessum þremur spurningum. Fréttastofa sjónvarpsins hefur einnig fengið áhuga á málin en mikilvægur þáttur í varnarviðbúnaði vegna hugsanlegrar notkunar eiturefna-, sýkla- og geislavopna er einmitt að vekja almenning til umhugsunar um málið til að hann átti sig á því að hættan er fyrir hendi.

Hinn 25. nóvember 2003 sendi dóms- og kirkjumálaráðuneytið frá sér fréttatilkynningu um að ég hefði skipað starfshóp embættismanna til að gera úttekt á varnarviðbúnaði vegna hugsanlegrar notkunar eiturefna-, sýkla- og geislavopna hér á landi og í framhaldinu að leggja fram tillögu til úrbóta með það að markmiði að viðbúnaður verði fullnægjandi. Verkefni starfshópsins var m.a. að huga að þörfinni hér á landi fyrir hlífðarföt, mælitæki, hreinsibúnað, lyf og læknisaðstoð.

Skýrsla hópsins var afhent mér í mars árið 2004. Hefur hún að geyma þá úttekt sem óskað var eftir og tillögur til úrbóta. Var það álit hópsins og ráðuneytisins að skýrslan yrði trúnaðarmál vegna atriða í henni. Um hana hefur verið fjallað í almannavarnaráði og einnig hefur hún verið rædd á málþingi sem dómsmálaráðuneytið efndi til 8. mars síðastliðinn um nýskipan almannavarnamála. Í stuttu máli þarf að gera viðbragðsáætlun sem yrði virkjuð ef ráðist yrði á okkur með sýkla-, efna- eða geislavopnum. Áætlunin næði til fræðslu, þjálfunar, öflunar á hlífðar- og hreinsibúnaði, auk þess sem ákveðið yrði hver bæri ábyrgð á þessu sérstaka verkefni.

Við Íslendingar erum í raun í svipuðum sporum og margar aðrar þjóðir og alþjóðastofnanir sem rætt hafa um ráðstafanir gegn þessari vá. Tillögur starfshópsins eru af sama toga og niðurstaðan af fyrstu alþjóðaráðstefnu Interpol um líftæknihryðjuverk sem haldin var fyrr í þessum mánuði, það yrði að vekja athygli á hættunni, að þjálfa menn til að takast á við hættuna. Það yrði að efla samstarf ólíkra stofnana og hafa til reiðu nauðsynlegan tækjabúnað.

Ég er þeirrar skoðunar að samstarf lögreglu, slökkviliðs og heilbrigðisstofnana ráði úrslitum um að árangur náist í vörnum gegn þessum vágesti. Viðbrögð á vettvangi ráðast einkum af tækjakosti slökkviliðs en þau starfa á vegum sveitarfélaga eins og kunnugt er. Ég tel æskilegt að samstarf verði milli þeirra og ríkisins um fjárfestingu í nauðsynlegum búnaði. Mér þykir eðlilegt að á nánari útfærslu á niðurstöðum starfshópsins verði tekið við gerð nýrra laga um almannavarnir.