131. löggjafarþing — 99. fundur,  30. mars 2005.

Konur sem afplána dóma.

626. mál
[15:26]

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Virðulegi forseti. Aflað var upplýsinga frá Fangelsismálastofnun ríkisins í tilefni af fyrirspurn hv. þingmanns. Í upplýsingum stofnunarinnar kemur fram að samfélagsþjónustan skiptist annars vegar í úrræði sem kemur í stað allt að sex mánaða óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar og hins vegar úrræði sem kemur í stað vararefsingar fésektar, sem tekur ekki einungis til dóma heldur líka sektarákvarðana.

Að mati Fangelsismálastofnunar er erfitt að miða fjölda þeirra sem gegna samfélagsþjónustu út frá fjölda þeirra sem hljóta dóma þar sem sú tala getur verið mjög villandi, m.a. vegna þess að sumir eru í samfélagsþjónustu á fleiri en einum dómi, dómar berast milli ára o.s.frv. Heppilegra þykir að taka mið af þeim fjölda sem veitt er samfélagsþjónusta og bera þá saman við fjölda innkoma í fangelsi á hverjum tíma.

Fjöldi þeirra sem hefja samfélagsþjónustu í stað óskilorðsbundinnar fangelsisrefsingar hefur haldist nokkuð stöðugur milli ára. Á tímabilinu 2000–2004, svo dæmi sé tekið, hófu 392 samfélagsþjónustu eða að meðaltali um 78,4 einstaklingar á ári. Þar af voru 23 konur eða að meðaltali um 7% á ári hverju. Á sama tímabili hófu 700 einstaklingar afplánun í fangelsi, að meðaltali 180 einstaklingar á hverju ári. Þetta þýðir að um 30% óskilorðsbundinna fangelsisrefsinga voru fullnustuð með samfélagsþjónustu á þessu tímabili.

Fjöldi þeirra sem hóf samfélagsþjónustu í stað vararefsingar á tímabilinu 2000–2004 var 633 einstaklingar, þar af voru 109 konur eða að meðal tali um 16% á ári hverju. Hlutfall kvenna jókst verulega á síðasta ári og var tæplega 22%. Á móti hófu 504 einstaklingar vararefsingu í fangelsum landsins eða að meðaltali 100,8 einstaklingar á hverju ári. Þetta þýðir að um 56% allra vararefsinga, þ.e. fésektir, sem ekki tekst að innheimta og lögreglustjórar óska eftir að afplánun skuli hefjast, eru fullnustaðar með samfélagsþjónustu en 44% í fangelsum landsins.

Vegna síðari spurningar hv. þingmanns skal tekið fram að í dag eiga bæði kynin möguleika á vinnu, útivist og því að stunda nám á framhaldsskólastigi meðan á afplánun refsingar stendur. Hins vegar hefur skort á að konur hafi jafnfjölbreytta möguleika til að stunda vinnu, útivist og tómstundir og karlar hafa núna í fangelsum landsins. Að þessu hefur verið hugað í tengslum við framtíðaruppbyggingu fangelsanna og miðað að því að unnt verði að vista konur í fleiri fangelsum og tryggja þeim fjölbreyttari vistunarúrræði en nú er unnt.