131. löggjafarþing — 100. fundur,  31. mars 2005.

Helgidagafriður.

481. mál
[10:39]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég taldi mig hafa vikið að því í máli mínu áðan að gagnstæð sjónarmið eru að takast á. Það er alveg rétt sem hv. þm. Ögmundur Jónasson vék að að það eru að takast á sjónarmið starfsmanna í verslunum annars vegar og hagsmunir verslunareigenda og ferðaþjónustunnar hins vegar, sem og jafnræðissjónarmiðin sem ég vék að áðan. Þess vegna þarf að stíga varlega til jarðar. Sett eru þröng skilyrði fyrir útvíkkuninni en ég vek athygli á því, eins og frumvarpið greinir frá, að þá tilteknu daga sem verið er að opna fyrir aukna þjónustu á er nú þegar heimild fyrir starfsemi t.d. lyfjabúða, bensínstöðva, bifreiðastöðva, verslana á flugvöllum og fríhafnarsvæðum, blómaverslana, söluturna og myndbandaleiga, skiptistarfsemi og tengda þjónustu. Frumvarpið er lagt fram vegna þess ójafnræðis sem kom upp í kjölfarið á þeirri þróun sem átt hefur sér stað hjá þessum aðilum, m.a. til að fullkomið jafnvægi sé á milli þeirra aðila sem eru í hinni tengdu þjónustu sem hefur skotið upp kollinum hjá þessum aðilum og hitt, að tryggja aðgang ferðamanna sem koma hingað á þessum dögum að ákveðinni nauðsynjavöru.

En svo ég svari þeirri spurningu sem til mín var beint ákveðið eru Landssamband íslenskra verslunarmanna og Verslunarmannafélag Reykjavíkur andvíg málinu, en nefndin komst hins vegar að sameiginlegri niðurstöðu um að hagsmunir þeirra væru varðir í kjarasamningum.